Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Þriðjudaginn 19. október 1999, kl. 16:29:26 (686)

1999-10-19 16:29:26# 125. lþ. 12.8 fundur 3. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# (gjöld af bensíni) frv. 86/1999, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 125. lþ.

[16:29]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég held reyndar að ég hafi haft þau orð um afstöðu okkar til brtt. hv. þm. að við treystum okkur ekki til að styðja hana. Reyndar er skilningur hv. þm. réttur. Ég mun greiða atkvæði gegn þessari tillögu vegna þess að ég tel hana ekki rétt skilaboð í umhverfislegu tilliti. Ég mun reyna, á einni mínútu og 41 sekúndu, að útskýra í hverju þetta er fólgið.

Það er auðvitað þannig að þeim mun hærra sem bensínverðið er, þeim mun meir hvetur það til sparnaðar og þess að menn kaupi orkusparneytna bíla. Menn þekkja reynsluna af hinni miklu bensínverðshækkun sem varð eftir olíukreppuna. Þá fór allt á fulla ferð hjá bifreiðaframleiðendum sem fóru að hanna og framleiða sparneytnari bíla og líka hjá almenningi sem fór að kaupa þá. Þá fór kostnaðurinn að koma við pyngju manna. Fyrir daga kreppunnar var ekki óalgengt að venjulegir fjölskyldubílar eyddu frá 12--15 og upp undir 30 lítra á 100 km. Nú kaupa menn helst ekki bíl sem eyðir meira en 6--8, minni bíl. Japanskir framleiðendur eru sagðir vera að þróa bíla sem komast alveg niður í 3--4 lítra á hundraðið en eru þó býsna aflmiklir og frískir bílar. Þarna hefur því orðið alveg gríðarleg þróun og ég tel að það eigi ekkert að gera sem gefi skilaboð um að menn ætli að fara til baka þarna.

Þetta er nú hugsunin í þessu. Það að bílaeign Íslendinga hafi aukist þó að bensínverð hafi verið hátt og notkunin hér sé mikil er engin afsönnun á þessum lögmálum. Þau eru nokkuð algild. Spurningin er svo bara hvernig menn stilla þetta af. Við teljum að þarna sé tiltölulega hófsamleg niðurstaða, með þeirri krónutöluálagningu sem þarna er. Það væru ekki rétt skilaboð að hafa fyrirkomulagið þannig, úr því að sett er þak, við óvenju afbriðgilega lágt bensínverð fari gjaldið lækkandi niður úr því þaki. Væri brtt. eingöngu um að þetta væru 9,30 kr. í staðinn fyrir 10,56, þá væri málið aðeins öðruvísi vaxið. Þá væru menn að velta fyrir sér því hvernig við stillum þakið af en ég held að þetta prósentugjald sé ekki skynsamlegt.