Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Þriðjudaginn 19. október 1999, kl. 16:31:53 (687)

1999-10-19 16:31:53# 125. lþ. 12.8 fundur 3. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# (gjöld af bensíni) frv. 86/1999, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 125. lþ.

[16:31]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég er engu sannfærðari en ég var áðan að sú brtt. sem ég mæli fyrir hafi þau umhverfislegu áhrif sem að hv. þm. teflir fram sem rökum gegn tillögunni. Hún er það mikilvæg til þess að stuðla að lækkun á framfærslu heimilanna og ekkert segir okkur að hún hafi þau áhrif sem þingmaðurinn dregur hér fram. Hv. þm. nefndi það í sinni fyrri ræðu að hann teldi að ekkert mundi reyna á þann öryggisventil sem við erum að setja með því að halda áfram inni 97% ákvæðinu, þ.e. að setja ákveðinn öryggisventil þannig að ef heimsmarkaðsverð lækkar þá njóti neytendur þess. Hv. þm. telur áhrifin einungis verða þau að þetta muni haldast í 9,30 kr. á lítrann. Ég bið hv. þm. að skoða þróunina sem varð á þessu ári þar sem að við sáum tölur allt frá 5,91 kr. í desember 1998 upp í 7 kr. í mars 1999 og síðan 9 kr. raunverulega alveg fram á mitt árið. Það bjóst enginn endilega við þessu. Ég minni á að fjárlögin tóku t.d. ekki mið af þessu, heldur af öðru og kom öllum á óvart og eins og hæstv. fjmrh. hefur nefnt þá bjóst enginn við þessu og fjárlögin á þessu ári gerðu ráð fyrir allt öðru og ekki þessari lækkun á heimsmarkaðsverði. Það er því alls ekkert hægt að halda því fram að ólíklegt sé að á þetta ákvæði muni reyna.