Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Þriðjudaginn 19. október 1999, kl. 16:33:38 (688)

1999-10-19 16:33:38# 125. lþ. 12.8 fundur 3. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# (gjöld af bensíni) frv. 86/1999, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 125. lþ.

[16:33]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég er þeirrar skoðunar að það að lækka sérstaklega álögur á bensín sé ekki mjög skilvirk eða skynsamleg aðferð til þess að lækka framfærslukostnað heimilanna. Ég var aldrei neinn sérstakur stuðningsmaður þeirrar fléttu í kjarasamningum sem gerð var hérna fyrr á öldinni að taka stóran hluta af viðbótarkaupmætti launafólks til lækkunar innflutningsgjalda bifreiða. Ég held að menn ættu að fara yfir þá sögu því að hún væri lærdómsrík fyrir menn. Ég held að það hafi ekki verið mjög góð ráðstöfun. Ég minni á að þetta skilar sjaldnast miklu til þeirra sem almesta hafa þörfina fyrir bætta stöðu og það eru þeir sem enga bíla eiga. Ætli það sé ekki þannig að margir þeir lakast settu í þjóðfélaginu eigi alls ekki bifreið og þurfi að notast við almenningssamgöngurnar sem mætti bæta og væri meiri jafnréttisaðgerð en það að fara offari í því að lækka þetta. Ég hef samúð með því að rekstrarkostnaði hins venjulega heimilisbíls eða fjölskyldubíls sé stillt í hóf af því að hann er almenn staðreynd í okkar þjóðfélagi. En ég hef litla samúð með hinu, að dekra sérstaklega við bifreiðarekstur og bifreiðaeign í landinu umfram það. Ég hef litla samúð með því. Mér er að vísu ljóst að ekki er auðvelt að gera þar greinarmun á, en það væri ég tilbúinn til að skoða.

Ég er ekki þeirrar skoðunar, svo ég eyði misskilningi um það, að það muni skipta nokkrum sköpum um bifreiðakaup eða bifreiðarekstur í landinu, hvort að þarna lendi menn í 10,56 eða 9,30. Það er frekar spurningin um grundvallarviðhorfin sem veldur því að ég styð ekki tillögu sem ég tel gefa óskynsamleg skilaboð. Og það tel ég þessa brtt. gera í gegnum þessa prósentuviðbót hv. þingmanna. Ef þeir afbrigðilegu tímar kæmu hér að bensínverðið færi jafnvel enn lægra en það fór í lok liðins árs þá vilja hv. þingmenn að tekjur ríkissjóðs fylgi með niður þannig að verðsveiflan niður á við verði enn þá meiri og bensínverðið lækki enn þá meira og það tel ég ekki skynsamlegt.