Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Þriðjudaginn 19. október 1999, kl. 16:35:57 (689)

1999-10-19 16:35:57# 125. lþ. 12.8 fundur 3. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# (gjöld af bensíni) frv. 86/1999, fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 125. lþ.

[16:35]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég vildi nefna nokkur atriði. Fyrst vildi ég leyfa mér að leiðrétta hv. síðasta ræðumann sem ítrekað nefndi vörugjaldsupphæðina 10,56. Það er reyndar meðaltalið á undanförnum fimm árum. Við leggjum til í frumvarpinu 10,50 þannig að við rúnnuðum þetta aðeins niður á við. (SJS: Er þetta orðið lægra en ég hélt?)

Ég vildi í upphafi þakka hv. efh.- og viðskn. fyrir ágæta yfirferð yfir þetta mál og samviskusamlega vinnu sem hefur endað með því að allir nefndarmenn viðstaddir á fundi leggja til að frv. verði samþykkt óbreytt. En síðan hefur komið brtt. sem búið er að gera hér grein fyrir og ég er eins og síðasti ræðumaður andvígur henni. Ég tel að það sé eðlilegt í þessu sambandi að líta til nokkuð langs tíma þegar verið er að meta hvernig eigi að festa það vörugjald sem við erum hér að leggja til að verði tekið upp. Við miðuðum við fimm ár vegna þess að það er sá tími sem við höfum reynslu af varðandi þetta 97% gjald sem nú er í gildi. En við höfum líka eldri tölur frá því í tíð fyrirrennara þessa gjalds, sem voru aðrir skattar, og reynslan frá þeim tíma sýnir okkur að þá var þetta enn hærra. Það vill nú svo til að í þeim fylgiskjölum sem hafa borist efh.-og viðskn., í áliti Félags íslenskra bifreiðaeigenda, kemur fram hvert hið erlenda innflutningsverð hefur verið á tonn undanfarin þrjú ár. Í október 1996 var það 228 dollarar á tonn en er nú í september 1999 225 dollarar. Og þeir sem muna nokkuð langt aftur í þessum efnum --- það geri ég reyndar af sérstökum ástæðum --- muna að það er ekkert ýkja langt síðan að innflutningsverðið var vel yfir 300 dollara og um nokkuð langt árabil. Það er rétt, held ég, sem hv. síðasti ræðumaður sagði að það þarf að leita aftur fyrir olíukreppuna 1973 til að finna verð sem var sambærilegt við það sem var hér um síðustu áramót. Með öðrum orðum, þetta verð á innfluttum olíuvörum var mjög afbrigðilegt. Það sem var hins vegar verra --- og það er það sem þetta frv. á að lagfæra --- var að við vorum með kerfi hér innan lands í skattlagningu sem magnaði þær verðsveiflur sem óhjákvæmilegar eru á erlendum mörkuðum. Og það sem boðið er upp á í þessari brtt. sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hefur flutt ásamt fleirum er að þegar að bensínverðið verður á alþjóðlegum markaði komið niður í svona 170 dollara á tonn og lækki síðan enn umfram það, þá skulum við bæta í 150% í viðbót ofan á þá lækkun. Ég verð að segja eins og hv. síðasti ræðumaður að mér finnst bara ekki nokkur einasta skynsemi í því.

Ég held að við eigum að gera það upp við okkur hvort við viljum fara yfir í að flytja tekjuöflun ríkisins af bensíni í þessu vörugjaldsformi í fast gjald eða ekki. Og ef það er niðurstaðan þá er næsta vandamál að ákveða hver viðmiðunartalan eigi að vera, festa hana í lög og síðan verður henni ekki breytt aftur nema með lögum. Ég tel að við höfum komist hér að algjörlega viðunandi niðurstöðu með þessa upphæð, 10,50, sama hvernig á málið er litið.

Þannig vill líka til að umsagnaraðilarnir í þessu máli hafa nánast allir tekið undir þessa aðferð, sumir í löngu máli en aðrir í stuttu. Tveir eða þrír aðilar gera athugasemd við töluna. En enginn gerir í raun og veru athugasemd við aðferðina.

Samtök iðnaðarins senda eina og hálfa línu í umsögn og segja að þau hafi fengið ofangreint frv. til umsagnar. Það er fyrri setningin, síðari setningin er: ,,Samtökin gera engar athugasemdir við frumvarpið og telja að það sé til mikilla bóta.``

Samtök atvinnulífsins segja varðandi upphæðina að þeim sýnist viðmiðunartímabilið sem byggt er á vera eðlilegt.

BSRB tekur ekki afstöðu til sjálfrar upphæðarinnar að svo stöddu, en styður aðferðina.

Alþýðusambandið telur að frv. sé skref í rétta átt þó vissulega séu til fleiri leiðir en hér er stungið upp á.

Félag íslenskra bifreiðaeigenda styður aðferðina en vill gjarnan hafa upphæðina lægri. Það er auðvitað skiljanlegt hjá slíkum hagsmunasamtökum sem þar eru á ferðinni sem hafa það hlutverk að reyna að draga úr öllum mögulegum kostnaði við bifreiðarekstur í landinu.

Verslunarráð Íslands styður þessa breytingu.

Neytendasamtökin telja að gjaldið sé of hátt og vísa síðan í fréttatilkynningu sína. Þeir telja að gjaldið sé of hátt, 10,50. Er eitthvert vafamál með það, hv. þm.? (JóhS: Lestu svo áfram.)

Já, þar segir, með leyfi forseta:

,,Með því að breyta vörugjaldi úr prósentugjaldi í fast gjald í krónum er verið að lögfesta mjög hátt gjald af hverjum bensínlítra.``

Ég geri athugasemd við þetta. Ég tel að þetta sé rangt, og það sem meira er, ég tel að í fréttatilkynningu Neytendasamtakanna sé farið með algeran misskilning að því er þetta varðar, þ.e. fylgiskjal með bréfinu sem reyndar segir efnislega það sama.

Ef maður lítur á þá talnarunu sem ég vitnaði til áðan og staðreyndir um heimsmarkaðsverð á olíu undanfarin 15 ár t.d., ég tala nú ekki um 25 ár, þá sér maður að við erum að tala hér um mjög sanngjarna tölu miðað við það sem verið hefur á fyrri árum.

Olíuverslun Íslands lýsir yfir eindregnum stuðningi við þá kerfisbreytingu sem frv. felur í sér, o.s.frv.

Auðvitað getur fólk tekið, alveg eins og hv. flutningsmenn brtt., einhver önnur viðmiðunartímabil og fengið einhverjar aðrar upphæðir sem niðurstöðu. Ég gerði það að gamni mínu meðan ég hlustaði á hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur að ég reiknaði út hvert 97% vörugjaldið hefði verið ef við mundum bara miða við fyrstu níu mánuði þessa árs, 1999. Og má ekki með sömu rökum segja að það sé jafngóð viðmiðun og árið 1998? Ef við tökum fyrstu níu mánuði þessa árs þá ætti þetta gjald að vera 8,95 kr. Ég er alveg hissa á hv. þingmönnum að hafa ekki lagt það til frekar en 9,30. Mér kemur á óvart að þeim skyldi ekki hafa hugkvæmst það að taka þessa síðustu níu mánuði til viðmiðunar.

En hérna verða menn að gera upp við sig hvað telst eðlilegt og sanngjarnt í þessu efni og ég held að það sem hér er lagt til uppfylli bæði þau skilyrði.

Ég vil svo gjarnan upplýsa örlítið um stöðu þessara mála að því er varðar tekjur ríkissjóðs á þessu ári. Ég sagði við 1. umr. málsins og önnur tækifæri að það vilji þannig til að þó að bensínið hafi farið hækkandi frá því snemma á árinu, þá séum við enn þá undir þeirri áætlun sem fjárlög þessa árs byggja á vegna þess að sú áætlun var byggð á hærra bensínverði eins og allir áttu von á að yrði. Til septemberloka eru tekjur af hinu almenna vörugjaldi af bensíni, sem við erum að tala um hérna, 97% gjaldinu, 9 millj. undir áætlun og af sérstaka vörugjaldinu 18 millj. undir áætlun. En í fjárlagafrv. kemur fram að gert sé ráð fyrir því að til ársloka vanti þarna upp á fjárlagaáætlun ársins af báðum gjöldunum samtals u.þ.b. 110 millj. kr. af þeirri ástæðu sem ég hef rakið. Hitt er svo alveg rétt að ýmsar aðrar tekjur ríkissjóðs eru umfram áætlun, þar á meðal vörugjald af ökutækjum sem til septemberloka er 1.034 millj. umfram áætlun, og að því er kemur fram í fjárlagafrv., líklegt að verði u.þ.b. 1.500 millj. umfram áætlun eins og þingmaðurinn rakti.

[16:45]

En hvað segir þetta okkur í sambandi við vörugjald af bensíni? Ekki nokkurn skapaðan hlut að mínum dómi. Við höfum upplýst í fjmrn. að horfur séu á því að tekjur ríkissjóðs almennt á árinu verði u.þ.b. 10 milljörðum umfram áætlun og vörugjaldið er þá 15% af því. Við vitum vel að ýmsir aðrir skattar eru umfram áætlun, virðisaukaskattur, tekjuskattar bæði einstaklinga og lögaðila o.s.frv. En það kemur ekki málinu við. Það er allt annað mál og varðar ekki vörugjald á bensíni.

Svo vitum við líka og höfum skýrt frá því að útgjöld ríkisins munu verða fram úr, kannski 5--5,5 milljarða, miðað við áætlun fjárlaga. Áætlanir fjárlaga eru því miður ekki fullkomnari en það og hafa aldrei verið að á þeim eru alltaf einhver óhjákvæmileg frávik.

Ég tel því að þessar upplýsingar hv. þm. um vörugjald af ökutækjum séu ekki haldbær rök fyrir því að leggja til nýtt tekjutap ríkissjóðs af vörugjaldi eða bensíni upp á u.þ.b. 250 millj. kr., sem er það sem felst í brtt. Það liggur þá enn þá fyrir að það er óupplýst hvernig á að koma til móts við það tekjutap.

Ég vildi svo að endingu, herra forseti, vitna til umsagnar sem barst frá Olíufélaginu hf. Það er reyndar mjög stutt umsögn þar sem gerð er ein efnisathugasemd sem mér finnst rétt að nefna til að taka af tvímæli ef á þyrfti að halda við lögskýringar síðar meir. Olíufélagið bendir á að rétt sé að taka fram við hvaða hitastig svokallaðir viðmiðunarlítrar skuli vera og bendir á að í uppgjöri á hinu sérstaka vörugjaldi í dag, þ.e. hinu svokallaða bensíngjaldi sé farið eftir áætluðum meðalhita ársins sem er 3°C. Þetta kann að hljóma sem mjög tæknilegt atriði, sem það vissulega er, en það er eðlilegt að það liggi fyrir að það er þá ætlunin að miða hina nýju álagningu á vörugjaldi við þetta sama hitastig. Eins og allir vita breytist rúmmál bensíns eftir hitastigi og þess vegna er eðlilegt að miða viðmiðunarlítrann svokallaða við tiltekið hitastig og ég vildi gjarnan að það kæmi fram hér hvert það væri. (Gripið fram í.) Ég efast ekki um að hv. frammíkallandi er meiri eðlisfræðingur en ég en þetta er nú held ég samt nauðsynlegt að liggi fyrir.

Að öðru leyti hyggst ég ekki orðlengja þetta, herra forseti, en þakka fyrir hve þetta mál hefur fengið góðar undirtektir í þinginu og reyndar hjá umsagnaraðilum og virðist eiga greiða leið í gegnum þingið og ég vænti þess að það geti verið orðið að lögum áður en vikunni er lokið.