Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Þriðjudaginn 19. október 1999, kl. 16:49:11 (690)

1999-10-19 16:49:11# 125. lþ. 12.8 fundur 3. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# (gjöld af bensíni) frv. 86/1999, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 125. lþ.

[16:49]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég vil taka undir þessi síðustu orð hæstv. fjmrh. og við munum svo sannarlega stuðla að því að svo geti orðið.

En ég vil minna hæstv. ráðherra á það, af því að hann eyddi löngum tíma í sínu máli í að ræða um þá viðmiðun sem notuð er, að hæstv. ráðherra sagði við 1. umr. málsins að sú viðmiðun gæti verið umdeilanleg sem er notuð í frv. Það hefur líka komið í ljós að hún er umdeilanleg. Þegar við förum í gegnum umsagnirnar eru þar nokkrir aðilar sem gera mjög alvarlegar athugasemdir við þá viðmiðun sem hæstv. ráðherra notar og m.a. Félag ísl. bifreiðaeigenda, Neytendasamtökin sem gera ekki bara athugasemd við viðmiðunina heldur við aðferðina líka. Einnig má benda á ASÍ sem gerir líka út af fyrir sig athugasemdir við aðferðina og segir að fleiri leiðir hefði mátt skoða.

Það á því ekki að koma á óvart að þessi viðmiðun hafi verið gagnrýnd og sé hér til umræðu og komin sé brtt. um aðra viðmiðun sem ég hef talað fyrir að sé eðlilegri og sanngjarnari í alla staði og skal ekki fara nánar út í að rökstyðja hér.

Ég geri mér grein fyrir því miðað við þá umræðu sem hefur farið fram að kannski er ekki mikil von til þess að sú tillaga sem ég hef hér mælt fyrir nái fram að ganga, því miður. Ég tel hana bæði eðlilegri og sanngjarnari miðað við þær álögur og ofurskatta sem bifreiðaeigendur hafa mátt þola á undanförnum mánuðum. Ég geri því ráð fyrir því að við í Samfylkingunni munum skoða það af fullri alvöru að flytja við 3. umr. þá brtt. sem ég reifaði aðeins í framsögu minni, þ.e. að heildarendurskoðun gæti farið fram á skattlagningu á bifreiðum sem við gætum út af fyrir sig tekið okkur nokkra mánuði eða kannski ár til þess að ræða og að við endurskilgreinum þessi markmið með álagningu skatta á bifreiðum og til hvaða verkefna skattheimtan eigi að renna og tökum þá til alvarlegrar umræðu það sem hér hefur verið rætt, umhverfisskattana sem ég held að sé löngu tímabært að skoða einmitt í tengslum við álagningu á bifreiðar.