Sérstakar aðgerðir í byggðamálum

Þriðjudaginn 19. október 1999, kl. 17:19:56 (697)

1999-10-19 17:19:56# 125. lþ. 12.9 fundur 10. mál: #A sérstakar aðgerðir í byggðamálum# þál., ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 125. lþ.

[17:19]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Öllum er orðið ljóst hver íbúaþróunin hefur verið undanfarin 20 ár og þá sérstaklega undanfarin 10 ár. Það hefur verið mikil röskun, allt að því holskefla getum við sagt núna undanfarin tvö ár, varðandi flutning fólks frá landsbyggðinni hingað á höfuðborgarsvæðið. Núna heyrum við að þessi fjöldi, um 2 þúsund manns á ári, er orðinn allt of mikill til þess að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafi undan við að byggja upp nauðsynlega samfélagsþjónustu. Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa ekki undan.

Undanfarin ár þegar við þingmenn utan af landi og allur almenningur hefur verið að benda á þann kostnað og þær miklu breytingar sem byggðaröskunin hefur valdið, þar eru vannýtt atvinnutækifæri í vannýttu húsnæði o.s.frv., þá höfum við fengið að heyra að þetta sé bara landsbyggðarvællinn og lítið annað. En nú er svo komið að ég held að hvert einasta mannsbarn geri sér orðið ljóst að ekkert þýðir að biðja um fleiri skýrslur. Það þýðir ekkert að skoða málið lengur. Það verður að fara að vinna eftir þeim byggðaáætlunum sem settar hafa verið fram og gera það markvisst.

Sú till. til þál. sem hér liggur frammi eru tillögur um aðgerðir umfram byggðaáætlun ríkisstjórninnar og tekur á ákveðnum þáttum.

Ástæðan fyrir þessari íbúaþróun er margþætt en segja má að flest sé mannanna verk. Með breytingu á fiskveiðilöggjöfinni, þ.e. þegar leyft var að selja og leigja kvóta, tilfærslan frá smábátunum yfir á stærri skip og frá einstaka skipum yfir í sameiningu fyrirtækja og samrekstur fyrirtækja í sjávarútvegsgreininni þar sem hagræðing í rekstri hefur gengið fyrir öllu. Smábátarnir hafa nær þurrkast úr á mörgum svæðum.

Ekki þarf að fara mörg ár aftur í tímann til þess að minnast stórra flota í nærri hverri einustu höfn á Austurlandi og á Vestfjörðum. Núna eru þar nokkrir bátar bundnir við bryggju og meira að segja ekki allir á sjó. Það að hraða stefnumótun í sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum sem miði að því að treysta byggð við sjávarsíðuna og í sveitum landsins miðar að því að efla strandveiðar, byggða- og búsetutengja veiðiréttindi og efla stuðning við landbúnað.

Við hvern smábát má ætla að ein fjölskylda, fjórir til fimm einstaklingar sem hafi haft atvinnu. Þegar þessi útgerð var þurrkuð út eins og hv. síðasti ræðumaður nefndi hurfu búsetuskilyrði margra fjölskyldna og þegar kvótinn var síðan leigður eða seldur í burtu var búsetuskilyrðum kippt undan enn fleirum. Á þeim stöðum þar sem enn þá eru skip og kvóti ríkir samt mjög mikið óöryggi vegna þess að fólk veit ekki hvenær og hvort kvótinn verður seldur í burtu aftur. Andleg líðan hefur ekki síður áhrif á það hvort fólk vill búa áfram í byggðarlagi sínu en efnahagsleg velferð.

Mikill samdráttur hefur orðið í landbúnaðinum, sérstaklega í sauðfjárræktinni, og því er næsti sauðfjárbúvörusamningur mjög mikilvægur fyrir þá stétt og okkur öll.

Margir félagslegir þættir hafa áhrif á það hvort fólk vill búa áfram úti á landi eða hvort það vill flytja út á land. Það verður þannig að þegar byggðin grisjast, þegar fólk byrjar að flytja, af hvaða ástæðu sem það er, þá hefur það áhrif á allt nærumhverfið. Ef vinirnir fara, ef börnin flytja, þá hefur það áhrif á það hvort manni finnst maður eigi að vera áfram eða hvort komið sé að því að maður geri eitthvað líka.

Aðgengi að framhaldsmenntun er mjög mikilvægur þáttur. Sá mikli kostnaður sem margar fjölskyldur verða að bera við það að koma börnum sínum til mennta hefur líka mikið að segja. Hvað halda menn að það séu margar fjölskyldur og foreldrar sem hafa flutt hingað á höfuðborgarsvæðið eingöngu vegna þess að börnin voru að fara í framhaldsskóla, til að geta haldið þeim heimili, til að gera útlagðan kostnað við búsetu barnanna meðan á skólahaldi stendur léttari þannig að öll fjölskyldan væri þá á sama stað en ekki væri haldið úti tvöföldum kostnaði við skólagönguna?

Úti um land hefur frábreytt afþreying líka verið gefin upp sem ástæða þess að fólk fari í burtu. Það gerist af sjálfu sér að þegar fólk flytur eru færri til þess að halda uppi þeirri afþreyingu sem fólk sóttist áður eftir. Kröfurnar eru aðrar, framboðið er meira á höfuðborgarsvæðinu og margir telja að það sé einmitt það sem gildi.

Fábreytt atvinnulíf er líka eitt af því sem hefur háð landsbyggðinni og því ber að þakka skýrslu Iðntæknistofnunar sem var unnin fyrir Byggðastofnun varðandi störf tengd fjarskiptabúnaði. Það eru tillögur sem er hægt að vinna strax að og það kemur reyndar fram í till. okkar til þál. sem er til umræðu að þetta sé ein af þeim leiðum sem við getum undið okkur strax í og því ber að smyrja hjólin og setja allt í gang.