Sérstakar aðgerðir í byggðamálum

Þriðjudaginn 19. október 1999, kl. 17:52:05 (700)

1999-10-19 17:52:05# 125. lþ. 12.9 fundur 10. mál: #A sérstakar aðgerðir í byggðamálum# þál., Flm. SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 125. lþ.

[17:52]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir svörin og viðbrögð hans. Ég vil segja og hughreysta hæstv. ráðherra með því að þó að það sé alveg rétt að tölulegar staðreyndir sýna að ekki er ýkja mikill munur á áratugunum 1980--1990 og svo aftur 1990--1999 a.m.k., ef eitthvað er þá er sá síðari jafnvel verri, sérstaklega seinni hluti hans en við höfum líka dæmin um hið gagnstæða og þar er það áratugurinn 1970--1980 sem er auðvitað stórmerkilegur vegna þess að þá tókst að snúa hlutunum við og skapa tímabundið jafnvægisástand, jafnvel ástand þar sem fjölgaði á landsbyggðinni umfram höfuðborgarsvæðið í nokkur ár. Auðvitað má ræða það og deila um hvers vegna það gerðist nákvæmlega en flestir tengja það þó við útfærslu landhelginnar, uppbyggingu togaraflotans og frystiiðnaðarins, umfangsmikilla samgönguframkvæmda og mikillar uppbyggingar í skóla- og heilsugæslumálum, en allt þetta fór saman á þessum áratug og af hlaust mikið uppgangstímabil á landsbyggðinni, miklar íbúðarbyggingar sigldu í kjölfar þessara framkvæmda sem halda mönnum reyndar á floti í dag því stór hluti af íbúðarhúsnæði í fjölmörgum þéttbýlisbyggðarlögum á landsbyggðinni er einmitt frá þessum árum.

Varðandi skýrsluna er ánægjulegt að tæknin geti líka gengið í lið með okkur í staðinn fyrir að snúast gegn okkur eins og hún hefur kannski gert að sumu leyti þegar störf hafa tapast út við tæknivæðingu og hagræðingu. Það er alveg hárrétt að mjög mörg þessi verkefni eru beinlínis áhugaverð og ættu að nýtast mönnum jafnvel til að ná betri árangri í rekstri sínum og þá auðvitað ekki síður opinberum aðilum en einkaaðilum. Úr því að þeir hafa komið auga á þetta og riðið á vaðið í mörgum tilvikum, aðilar eins og Íslensk miðlun, flutt verkefni út á land eða aðili eins og Flugleiðir hefur flutt störf heim frá Bandaríkjunum á nákvæmlega sama grunni vegna þess að hægt er að svara í símann fyrir Flugleiðir í Bandaríkjunum í Súðarvogi, hvers vegna skyldu þá ekki ráðuneyti og stjórnsýslustofnanir nýta sér kosti þess að gera slíkt hið sama?

Ég ítreka spurningu mína að lokum til hæstv. forsrh., er ekki nauðsynlegt að sjá til þess að einhverjir fjármunir verði fyrir hendi á fjárlögum næsta árs til þess að hrinda fyrstu verkefnunum af stað?