Sérstakar aðgerðir í byggðamálum

Þriðjudaginn 19. október 1999, kl. 17:54:36 (701)

1999-10-19 17:54:36# 125. lþ. 12.9 fundur 10. mál: #A sérstakar aðgerðir í byggðamálum# þál., forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 125. lþ.

[17:54]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að æskilegt væri að hafa fjármuni fyrir hendi. Ég skal ekki segja um hve miklir fjármunir það þurfi að vera en það er örugglega æskilegt að slíkir fjármunir séu til staðar.

Án þess að fara að sökkva sér í fortíðina er það alveg rétt að það var og er skjallega sannað og við munum öll að það var uppgangur tímabundið á landsbyggðinni á þessum árum, 1974--1980 minnir mig, en því miður var það ekki varanlegt og gríðarlegir fjármunir voru settir til hliðar í þessu skyni sem landsbyggðin hefur svo sem búið að mörgum hverjum áfram en því miður var ekki um varanlegar breytingar að ræða og stóð kannski einkum og sér í lagi í tvö til þrjú ár.

Vegna þess sem hv. þm. nefndi áðan í fyrri ræðu sinni og ég náði ekki að svara varðandi þensluna hér og að hún væri kannski í sjálfu sér að hluta til búin til vegna flutningsins, þá held ég mjög varasamt sé að áætla sem svo að þarna komi eggið á undan hænunni. Ég held að það væri ekki uppgangur í byggingariðnaði nema vegna þess að uppgangur í efnahagslífinu hófst. Byggingariðnaðurinn tók seinast við sér og eftir að uppgangur hafði orðið á öðrum sviðum í eitt til tvö ár var enn lægð í byggingariðnaði, meira að segja á þessu svæði. Hann tók síðan við sér, það er reyndar þekkt úr fyrri uppsveiflum að byggingariðnaðurinn tekur seinast við sér en stendur oftast nær lengur við en sumt annað í uppsveiflu. Auðvitað vonast ég til þess að þetta verði ekki dæmigerð uppsveifla og ég hef ekki trú á því að svo verði en þetta er nú staðreynd máls. Ég held líka að vegna landsbyggðarinnar þá megum og verðum við, og þar greinir mig á við hv. þm., að vera mjög ákveðin í því að byggja upp starfsemi eins og til að mynda álverið fyrir austan. Þarna greinir okkur á en það er einn af þeim þáttum sem ég tel vera mjög þýðingarmikinn fyrir til að mynda byggðastefnu ríkisstjórnarinnar.