Sérstakar aðgerðir í byggðamálum

Þriðjudaginn 19. október 1999, kl. 17:56:44 (702)

1999-10-19 17:56:44# 125. lþ. 12.9 fundur 10. mál: #A sérstakar aðgerðir í byggðamálum# þál., Flm. SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 125. lþ.

[17:56]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Þó við sleppum algjörlega rökræðum um það hvort komi á undan í þessu tilviki eggið eða hænan er eitt alveg ljóst að þegar þessi mikla hænsnarækt er komin í gang, þegar þessi mikli straumur er hafinn, þá er þetta sjálffóðrandi kerfi. Þetta er hálfgerð eilífðarvél og það var það sérstaklega sem ég var að leggja áherslu á. Þegar fólksstraumur inn á þó ekki þéttbýlla svæði en þetta hér er, svona í heimssamhengi, upp á 2--3% á ári, kannski 3.500 manns þegar allt leggst saman, flutningarnir af landsbyggðinni, flutningarnir frá útlöndum og náttúruleg viðkoma hér á svæðinu, þá er ósköp einfaldlega sjálfbyggð spenna upp við þær aðstæður vegna þess að verið er að byggja yfir svo margt nýtt fólk að t.d. í almennum byggingariðnaði hlýtur að vera gullgrafaraástand, það er eiginlega alveg sjálfgefið. Hvað setur þetta af stað í byrjun skiptir kannski ekki sköpum í þessu samhengi heldur hitt að þegar ástandið er orðið eins og það er hefur það mikla eiginleika til þess að halda sjálfu sér við. Það er alveg ljóst.

Varðandi álverið þá er það auðvitað önnur og stærri deila. Nú getum við velt fyrir okkur og rætt annars vegar um hin staðbundnu áhrif þess sem ég hef aldrei neitað að verði að sjálfsögðu einhver á Reyðarfjörð og næsta nágrenni, ég held reyndar að þau verði minni og ekki eins jákvæð og ella væri ef jafnframt væri gripið til ráðstafana til að breyta hinum almennu undirliggjandi orsökum byggðavandans. Hitt er alveg jafnljóst, hæst. forsrh., að álver á einum stað á landsbyggðinni er ekkert innlegg í hinn almenna atvinnu- og byggðavanda landsbyggðarinnar í heild. Eða hverju eru Hríseyingar nær eða Þingeyringar eða aðrir slíkir þó að rísi álver á Reyðarfirði ef ekkert annað breytist?