Sérstakar aðgerðir í byggðamálum

Þriðjudaginn 19. október 1999, kl. 17:58:56 (703)

1999-10-19 17:58:56# 125. lþ. 12.9 fundur 10. mál: #A sérstakar aðgerðir í byggðamálum# þál., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 125. lþ.

[17:58]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Hv. 1. flm. þess máls sem er hér til umræðu var svolítið að kvarta undan því að við samfylkingarmenn hefðum ekki tekið þátt í umræðunni. (SJS: Ég saknaði þess.) Eða saknaði þess. Þegar þing kom saman báðum við strax um umræðu utan dagskrár og það kann vel að vera að okkur hafi ekki verið kunnugt um hvaða mál væru komin til dreifingar þegar það var og ég sé ekki nema fulla ástæðu til þess að ræða þessi mál sem allra oftast í hv. Alþingi.

En ástæðan fyrir því að ég hef ekki tekið fyrr til máls er að mig langaði til að heyra í hæstv. byggðamálaráðherra, sem hefur haft það hlutverk á níunda ár að gegna þeirri stöðu, hvernig hann liti á þá tillögu sem hér er til umræðu.

[18:00]

Hann hefur nú lokið máli sínu og satt að segja er ég ekki miklu nær um hvaða augum hann lítur á þær tillögur sem eru fólgnar í plagginu sem hér er til umræðu. Mér fannst hann tala um flest annað og meira en sjálft plaggið. Ég vil, áður en ég vík að því, nota tækifærið og spyrja hæstv. ráðherra hvernig eigi að standa að þeirri breytingu sem nú verður um áramótin, að byggðamálin fara úr höndum hæstv. ráðherra til iðnrn. í hendur hæstv. iðnrh. Mér er kunnugt um að það eru ekki neinar upphæðir, engir fjármunir á fjárlögum tengdir iðnrn. vegna þessara breytinga. Það sést heldur hvergi í plagginu. Ég veit ekki til þess að opinberaðar hafi verið neinar skýringar á því hvernig iðnrn. ætlar að taka á þessu máli. Nú er liðið nokkuð á haustið og áramótin ekki langt undan. Ég geri ráð fyrir því að það þurfi að huga að málum í iðnrn. til að vinna áfram að þeim nauðsynlegu breytingum og málum sem menn vilja koma í framkvæmd á næsta ári. Ég spyr þess vegna hæstv. ráðherra: Hvað líður þessari breytingu? Hvað er að gerast?

Síðan ætla ég að víkja að því sem lagt er til í þessari þáltill. Mér finnst full ástæða til að skoða margt af því. Ég hef hins vegar fyrirvara um upphæðir eða fjármunina sem þarna eru lagðir til. Ég sé ekki fyrir mér að það sé mikil speki á bak við þær tölur sumar hverjar. En látum það nú vera. Ég held t.d. að peningar til nýsköpunar sem nefndir eru í 1. liðnum, framlags til atvinnuþróunarfélaga á landsbyggðinni, séu kannski ekki endilega þarfir --- svo há upphæð, meina ég. Það segi ég einfaldlega vegna þess að hafi menn arðbær atvinnutækifæri fram að bera í dag þá er ekki erfiðleikum bundið að fá peninga til að leggja í slíkt. Þar er spurningin ekki um fjármagn.

Til viðbótar tekjum Vegasjóðs, stendur hér. Þar er verið að leggja til meiri framkvæmdir í vegamálum. Ég ætla ekki að blanda mér í þá umræðu. Það tekur lengri tíma en ég hef, að ræða hvernig staðið hefur verið að þeim málum á undanförnum árum. Vissulega væri full ástæða til þess að flýta vegaframkvæmdum víða á landinu og um þessa jarðgangagerð. Ég veit ekki betur en verið sé að undirbúa jarðgangaáætlun og vonandi kemur hún hér til umræðu sem allra fyrst. Það kann vel að vera að þessi upphæð passi þar í og ætla ég ekki að þræta um það. Hins vegar held ég að menn þurfi að skoða málið sem í heild, vita hvaða röð á að vera á framkvæmdum til þess að sjá hve háar upphæðir þarf.

Hér er talað um félagslega þjónustu og rekstur fjárhagslega veikburða sveitarfélaga. Þarna er sannarlega ástæða til að leggja nokkurt lið. Það ætti að mínu viti að felast í að hjálpa þessum sveitarfélögum við að stækka og verða öflugri. Ég tel fulla ástæðu til að fara í viðbótarátak og gera sveitarfélögum kleift að rækja hlutverk sitt.

Hér kemur síðan liður þar sem talað er um fjarskipti og flutningsgetu grunnnetsins og annað því um líkt. Það er svolítið skylt þessari skýrslu sem var verið að tala um áðan. Ég fagna henni og vona sannarlega að mönnum verði að ósk sinni um að út úr þessu komi mörg störf handa landsbyggðinni. Hins vegar vil ég vara menn við að halda að þessi leið muni bjarga öllum byggðarlögum frá þeim vanda sem þau stríða við. Það er ekki einu sinni þannig að það sé alls staðar atvinnuleysi sem veldur byggðaflóttanum, því miður. Vantrú á stöðu byggðanna veldur byggðaflótta víða. Það kemur til af öðrum ástæðum en að menn vanti vinnu, þveröfugt við það hefur á ýmsum svæðum verið erlent vinnuafl vegna þess að vantað hefur íslenskt vinnuafl til þess að vinna þar. Það er því annarra ástæðna að leita fyrir því að fólk fer frá þeim svæðum.

Hér kem ég að 6. lið. Þar er talað um framhaldsnámið og fjarnám í afskekktum byggðarlögum. Ég ætla svo sannarlega að taka undir það sem þar stendur. Ég er sannfærður um að menntamálin skipta mestu máli við að varðveita og styrkja byggð í landinu. Þar ættu menn að geta orðið sammála um að gera virkilegt átak svo fólkið á landsbyggðinni geti fengið mestu og bestu menntun sem mögulegt er að veita.

Um heilsugæsluna ætla ég ekki að fjölyrða. Það er auðvitað mjög nauðsynlegt að hún sé til staðar. Það hefur verið erfitt sums staðar að halda í lækna og hjúkrunarlið af ýmsum ástæðum. En ég held að þar sé ekki mikið við hið opinbera að sakast í sjálfu sér. Þar hafa menn reynt að standa sig. Það hefur verið af öðrum ástæðum sem það hefur gengið verr.

Hér eru mörg atriði sett fram. Ég er ekki kominn að þeim sem ég ætlaði helst að fjalla um. Ég ætla því að koma aftur upp síðar og ræða þau. Ég held að full ástæða sé til þess að taka undir margt í þessari tillögu. Þó ég komist ekki yfir það allt í þessari ræðu þá bæti ég einhverju við á eftir. Ég fagna því að hæstv. byggðamálaráðherra er mættur til umræðunnar og vonast sannarlega til þess að hann muni taka aftur til máls, segja álit sitt á þessari tillögu og fara yfir einhver af þeim atriðum sem hér eru lögð til þannig að fram komi hvort hann styður þessar hugmyndir eður ei.