Sérstakar aðgerðir í byggðamálum

Þriðjudaginn 19. október 1999, kl. 18:17:09 (710)

1999-10-19 18:17:09# 125. lþ. 12.9 fundur 10. mál: #A sérstakar aðgerðir í byggðamálum# þál., JónK
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 125. lþ.

[18:17]

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Sú tillaga sem hér er til umræðu varðar alvarlegt mál og alvarlega þróun sem hefur átt sér stað á undanförnum árum í byggðamálum. Ég ætla ekki að draga úr því. Tillagan er um margt góðra gjalda verð. Hún verður að vísu að skoðast sem nokkurs konar stefnuyfirlýsing. Það hefur reyndar komið fram hér að talnaverkið í henni er ekki byggt á neinum nákvæmnisútreikningum en ég ætla ekki að gera það að umræðuefni. Tillagan fer vafalaust til nefndar og ég álít að hún eigi að fá þar vandaða umfjöllun.

Á ýmsu hefur gengið í byggðamálum á undanförnum árum. Það er alveg rétt. Á árunum 1974--1978 fjölgaði á landsbyggðinni. Ég held að það sé fyrst og fremst vegna útfærslu landhelginnar og einnig að tekið var þá á í margs konar uppbyggingu sem vantaði á landsbyggðinni. En mér er í fersku minni að ég var að byrja þá í stjórnmálum og aldrei hefur nú Framsfl. fengið jafnslæma útreið í kosningum eða jafnvel á lýðveldistímanum og eftir það. Eigi að síður er ég ekki að segja þetta vegna þess að ég telji að það eigi að ... (SJS: Það var vinstri stjórnin sem færði út landhelgina.) Sem færði út landhelgina? (SJS: Vinstri stjórn, en ekki stjórn ykkar með íhaldinu.) Já, ég kann það mál allt saman, hv. þm.

En 1987 og 1988 var mikil uppsveifla í þjóðartekjum líkt og núna. Þá sló henni út í gríðarlegum fjárfestingum á höfuðborgarsvæðinu, líkt og henni gerir núna. En þá lentum við í mikilli verðbólgu og niðursveiflu um árabil. Og mér finnst margt núna minna á ástandið sem var fyrir tíu árum. Við verðum auðvitað að reyna að forðast að það verði eins og að við upplifum niðursveiflu á fyrstu árum nýrrar aldar á við það sem við gerðum þá. En nóg um það.

Ég tel að ástæðurnar fyrir byggðaflóttanum og byggðavandamálunum á undanförnum árum séu e.t.v. þær, eins og hér hefur komið fram, að í undirstöðuatvinnuvegunum eru takmörk. Það er takmörkuð auðlind í sjávarútvegi. Menn hafa það ekki á tilfinningunni að allir geti gengið í hana eins og áður og vegna markaðsmála hefur landbúnaðurinn dregist saman. Þetta voru þær undirstöðuatvinnugreinar sem voru á landsbyggðinni. Við þessu verður að bregðast. Fleiri möguleika vantar í atvinnulífið til þess að fólk fái þá tilfinningu að hægt sé að sækja fram á landsbyggðinni og það eru ýmsir möguleikar fyrir hendi.

Það hefur komið fram að þróun í fjarskiptum er af hinu góða fyrir landsbyggðina. Það felast möguleikar í henni. Ég tek einnig undir það sem hefur verið sagt um sveitarfélögin, að þjónusta þeirra er afar mikilvæg. Þau þurfa að stækka og eflast en þau þurfa að hafa möguleika á því að standa undir þeirri þjónustu sem krafist er af þeim. Ég held t.d. að grunnþjónusta eins og dagvistunarmál sé afar mikilvæg fyrir sveitarfélög úti um landsbyggðina ef fólk á að búa þar á nútímavísu, svo eitthvað sé nefnt.

Aðalatriðið er að fólkið á landsbyggðinni finni að það hafi möguleika til sóknar. Ég held t.d. að fólk verði að hafa það á tilfinningunni að það hafi möguleika til sóknar í iðnaðarmálum. Og mér finnst dálítill tvískinnungur í því hjá flutningsmönnum að tillögunni að berjast svo hatrammlega á móti atvinnuuppbyggingu í iðnaðarmálum og orkumálum á Austurlandi og þeir gera, því að það eru þó möguleikar sem felast í því og það á ekki að koma í veg fyrir neina aðra möguleika annars staðar. Það á ekki að koma í veg fyrir að Hríseyingar geti sótt fram t.d. í að nota sér hina nýju tækni í fjarskiptum. Ég tel að uppbygging í iðnaði og orkumálum, t.d. á Austurlandi sé mjög stórt og veigamikið byggðamálaverkefni. Það er verkefni fyrir þjóðina alla og það er verkefni í byggðamálum. Það er viðbót við þann kost sem er þar fyrir hendi.

Ekki er verið að biðja um neina ölmusu frá ríkisvaldinu. Þarna er bara verið að biðja um að koma upp og staðsetja starfsemi sem getur aukið þjóðartekjurnar og aukið það sem til skiptanna er, en í byggðamálum passar þetta verkefni inn í þær aðstæður sem núna eru, þó að ég viti að hv. flm. eru ekki þeirrar skoðunar og deila ekki þeirri skoðun með mér. Ég er einfaldlega nokkuð hissa á þessu en ég efast ekkert um góðan vilja flm. tillögunnar í byggðamálum. Mér dettur ekki í hug að efast um það. En mér finnst í þessu felast dálítill tvískinnungur. Ég verð að segja það.

Ég endurtek það sem ég sagði áðan að ég tel að tillagan eigi að fá vandaða umfjöllun. Mörg af þessum málum eru til meðferðar í fjárln., eða nokkur af þeim, og ég tel að þau eigi að fá þar vandaða skoðun. Ég sagði það í 1. umr. um fjárlögin í ræðu minni að ég vildi lesa saman tillöguna sem samþykkt var hér í vor í byggðamálum og fjárlagafrv. og leggja í það nokkra vinnu. Og ég endurtek það hér með.