Sérstakar aðgerðir í byggðamálum

Þriðjudaginn 19. október 1999, kl. 18:27:03 (712)

1999-10-19 18:27:03# 125. lþ. 12.9 fundur 10. mál: #A sérstakar aðgerðir í byggðamálum# þál., JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 125. lþ.

[18:27]

Jón Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég kannast ekki við það, a.m.k. hef ég ekki gefið þær yfirlýsingar að álver séu nokkur lausn, allsherjarlausn á byggðavanda þjóðarinnar, það er langt frá því. Hins vegar flokkast þessi áform fyrir austan undir byggðamál. Atvinnumál flokkast undir byggðamál og þetta er atvinnumál. Ég er þeirrar skoðunar, ég veit að við erum ósammála um það ég og hv. 3. þm. Norðurl. e., að bygging álvers þurfi ekki að koma í veg fyrir neina aðra atvinnuuppbyggingu heldur þvert á móti. Þetta er sá kostur sem er innlegg í það t.d. að auka þjóðartekjurnar, auka það sem til skiptanna er, auka það sem við getum sett í byggðamál. Allt kostar þetta peninga.

Ég skrifa ekki undir þá stefnu að höfuðborgarsvæðið eigi að sitja að þessari uppbyggingu eitt. Ég hef ekkert heyrt um það að búið sé að afskrifa það hjá þjóðinni að byggja upp orkufrekan iðnað. Mér er kunnugt um að það er á stefnuskrá hjá vinstri grænum að hafna þeim atvinnuvegi. Ég er ósammála því. Ég tel hins vegar að hann sé takmörkunum háður eins og annað og að orkuöflunin sé takmörkunum háð. En ég get ómögulega skilið þessa atvinnuuppbyggingu algjörlega frá atvinnulífi landsbyggðarinnar. Ég get ekki komið því heim og saman.