Sérstakar aðgerðir í byggðamálum

Þriðjudaginn 19. október 1999, kl. 18:29:13 (713)

1999-10-19 18:29:13# 125. lþ. 12.9 fundur 10. mál: #A sérstakar aðgerðir í byggðamálum# þál., Flm. SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 125. lþ.

[18:29]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Ég veit svo sem ekki hversu frjó frekari umræða á þessum nótum er um þessa hluti. Ég hef margsagt það áður og get endurtekið einu sinni enn að mér dettur ekki í hug að neita að því að uppbygging álvers, stórframkvæmdar af því tagi á Reyðarfirði hefur að sjálfsögðu ákveðin staðbundin áhrif á því svæði. Það liggur í hlutarins eðli. Það er ljóst að þar verður mikil innspýting á meðan á framkvæmdatímanum stendur og síðan verða þar eftir ákveðin störf í því iðjuveri. En það, fyrir það fyrsta, réttlætir ekki hvað sem er í umhverfismálum eða náttúruspjöllum og getur að sjálfsögðu þýtt að menn leggist gegn þeim framkvæmdum þó að erfitt ástand sé í byggðamálum á viðkomandi svæði. Það verður hv. þm. að reyna að skilja.

Þetta er þá spurning um hvort eigi að víkja. Ætla menn að ýta til hliðar öllum nútímalegum viðhorfum og vinnubrögðum varðandi umhverfismál bara af því að erfitt ástand er í byggðamálum á viðkomandi svæði? Réttlætir það hvað sem er? Er þá ekki bara stutt í að við tökum aftur upp á borðið plönin um að virkja Gullfoss ef erfitt ástand skyldi nú verða í uppsveitum Árnessýslu?

[18:30]

Hvar ætla menn að láta staðar numið? Eru ekki einhvers staðar takmörk sem menn verða að setja sér og virða? Það hefur verið krafa okkar auðvitað fyrst og síðast um að allar þessar framkvæmdir, áður en til þeirra sé stofnað, lúti lögformlegum leikreglum, þarna fari fram lögformlegt mat á umhverfisáhrifum o.s.frv.

Varðandi almenna afstöðu okkar til stóriðjuuppbyggingar þá er hún sú að nú eigum við Íslendingar að láta staðar numið og ekki ráðast í frekari uppbyggingu á erlendri stóriðju, mengandi erlendri stóriðju og stórvirkjunum í hennar þágu. Við þurfum tíma til að endurmeta stöðu okkar og móta nýja stefnu, þar á meðal og ekki síst sjálfbæra orkustefnu um hvernig við ætlum að ráðstafa takmörkuðum orkuforða okkar skynsamlega í þágu framtíðarhagsmuna þjóðarinnar.