Sérstakar aðgerðir í byggðamálum

Þriðjudaginn 19. október 1999, kl. 18:34:02 (715)

1999-10-19 18:34:02# 125. lþ. 12.9 fundur 10. mál: #A sérstakar aðgerðir í byggðamálum# þál., ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 125. lþ.

[18:34]

Árni Steinar Jóhannsson:

Herra forseti. Það er alveg makalaust að hlusta á umfjöllun hv. þm. Jóns Kristjánssonar um þessa tillögu. Það eykur manni kannski ekki bjartsýni en þó ætla ég að reyna.

Við hjá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði erum raunsæisfólk og gerum okkur fulla grein fyrir því að það hafa orðið breytingar á þessu samfélagi, breytingar á sviði sjávarútvegsmála, breytingar með sölu á ríkisfyrirtækjum o.s.frv., sem hafa að hluta leitt til þeirra vandamála sem við erum að kljást við í byggðamálum.

Það var þannig að þjóðin gat litið á fyrirtæki eins og Póst og síma sem fyrirtæki jöfnunaraðgerða. Á örfáum árum hefur samfélaginu verið breytt þannig að markaðshyggjan ríkir og það er einn angi stóru vandamálanna. Við gerum okkur grein fyrir því að ríkið getur breytt málunum og við hér í þinginu. Við getum notað það afl sem við höfum tök á, þ.e. opinberan rekstur. Út á það gengur þessi tillaga, að gefa tóninn og efla bjartsýni heima í byggðarlögunum. Það er aldeilis óboðlegt að hefja á þessum grunni umræður um stóriðjustefnu, stalínískar, miðstýrðar aðferðir sem til lengri tíma litið skila engu. Það er ekki við hæfi að stilla málunum upp á þennan hátt í þessu samhengi.

Opinberir aðilar, ríkið og sveitarfélög geta gefið tóninn og aukið mönnum bjartsýni. Opinberir aðilar, ríkið í þessu tilfelli, gáfu tóninn fyrir suðvesturhornið fyrir þremur árum. Það gaf tóninn um að hér ætti að byggja upp með stórkostlegri iðnaðaruppbyggingu á einum stað. Það er ótrúlegt að upplifa að ákvörðunartaka um mikla iðnaðaruppbyggingu skuli ekki vera sett í samhengi við hugsanlegar byggðarlegar afleiðingar, að sérfræðingar okkar, þingið og ríkisstjórnin skuli ekki gera tilraun til þess að gera sér grein fyrir því. Það þarf enga sérfræðinga til að átta sig á því að það gerist eitthvað stórt ef menn haga sér svona í fjárfestingum.

Stærri lönd en Ísland og íslenskt efnahagskerfi hafa haft áhyggjur af stórum fjárfestingum, fjárfestingum á þann hátt sem við höfum upplifað síðustu þrjú árin. Það eru meira að segja dæmi um það með stórfjárfestingar í Danmörku að menn hafi dregið úr fjárfestingu, dregið úr framkvæmdum og tekið þær á lengri tíma vegna þess að þeir hafa ekki treyst viðkomandi svæðum, og þá gjarnan höfuðborgarsvæðinu, til þess að taka við svo mikilli innspýtingu á erlendu fjármagni. En hér er stemmingin sú að það sé bara um að gera að fá eins mikið og hægt er, helst fimm eða sex álver í einu. Sérfræðingar okkar í efnahagsmálum segja að efnahagskerfið þoli þetta og þetta sé ekkert mál. Þetta er auðvitað bara bull.

Þessi tillaga gengur út á að gera sér grein fyrir staðreyndum. Við gerum okkur grein fyrir því að það er búið að selja Póst og síma. Við gerum okkur grein fyrir því að það hefur orðið samþjöppun í sjávarútveginum o.s.frv. Í 12 liðum er hægt að gefa tóninn með aukningu á opinberum framkvæmdum úti á landi þannig að menn öðlist þá bjartsýni sem nauðsynleg er til að hafa trú á svæðinu sem þeir búa á.

Það er einkennilegt fyrir okkur sem búum úti á landi að á þeim tíma að efnahagsuppbyggingin hér hefst af alvöru --- og þá er ég að meina innflutt fjármagn frá útlöndum til orkuuppbyggingar og iðnaðaruppbyggingar í Hvalfirði, í göngunum, í járnblendinu, suður í Straumsvík --- þá er haldið áfram á fullri ferð í opinberum framkvæmdum á höfuðborgarsvæðinu. Hvers konar sérfræðingar erum við og hvers konar ráðgjafa höfum við? Hvert barn hefði fyrir þremur árum getað séð að ef menn stöldruðu ekki við, stokkuðu upp og drægju úr framkvæmdum hér þá mundi eitthvað stórkostlegt gerast. Ég hef fullyrt það áður og ég fullyrði það nú að helmingurinn vandans sem við erum að kljást við varðandi fólksflutninga er út af því að menn horfðust ekki í augu við þessi grundvallaratriði.

Auðvitað eigum við að horfa á þetta. Ég vil enn og aftur beina orðum mínum til hv. þm. Jóns Kristjánssonar og segja að þessi ríkisstjórn og síðustu tvær ríkisstjórnir hafa ekki haft tilburði af neinu tagi til þess að horfast við augu við ,,interior`` vanda og er það þó flestum þjóðum kappsmál að haga málum þannig að innanríkismál fúnkeri vel, jafnvægi ríki og að menn geti unað glaðir við sitt.

Við réttum fram sáttarhönd með tillögum sem við teljum vel framkvæmanlegar. Við teljum að e.t.v., þegar nettótala er gerð upp, kosti þetta okkur sáralítið sem ekki neitt. Ef hægt er að hægja á þeirri þenslu sem hér er og fólksflutningunum með tiltölulega einföldum aðgerðum á þennan hátt, upp á 4--5 milljarða, þá er til mikils unnið ef við þurfum ekki að eyða tilsvarandi peningum öllum í tryllingslega uppbyggingu hér á þessu litla svæði.

Að síðustu vil ég koma að öðru. Þetta er ekki bara byggðavandi, þessi tilfærsla á fólki. Tilfærsla á þeim skala sem við höfum upplifað nú síðustu tvö, þrjú árin veldur rótleysi. Hún er fjandsamleg fjölskyldum. Hún er uppspretta annarra vandamála sem við erum að kljást við, eiturlyfjavanda o.s.frv.

Herra forseti. Við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði lítum á þessi mál í nýju ljósi og krefjumst þess að við notum hið samfélagslega afl, sem við ráðum yfir, til þess að sýna fólkinu í hinum dreifðu byggðum að þar ætlum við að byggja upp alveg eins og annars staðar. Við verðum að gefa þann tón. Það er gamaldags aðferð sem notuð hefur verið um 30 ára skeið að halda að aflið til byggingar á iðnaðartækjum eigi að koma héðan. Það er umgjörðin sem á að koma héðan og hvatinn til uppbyggingar sem á að koma héðan. Staða samfélagsins er þannig í dag að múgur og margmenni, félagasamtök og einstaklingar eru tilbúin að taka höndum saman og byggja upp samfélagið ef við verðum menn til að gefa þann tón sem þarf til að byggja upp í framtíðinni.

Það er engin þörf á að ríkisafl og ráðuneyti komi með eina stóra verksmiðju og klessi henni niður með ófyrirséðum afleiðingum.