Sérstakar aðgerðir í byggðamálum

Þriðjudaginn 19. október 1999, kl. 18:46:22 (718)

1999-10-19 18:46:22# 125. lþ. 12.9 fundur 10. mál: #A sérstakar aðgerðir í byggðamálum# þál., JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 125. lþ.

[18:46]

Jón Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Mér er alveg fullkunnugt um að við erum í umræðu hér um byggðamál. Ég tók vel undir þessa tillögu. Hins vegar get ég ekki fallist á að taka einn sérstakan þátt atvinnumála út úr og minnast ekki á hann, þátt sem er þó stærsta atvinnumálaverkefni sem í gangi er fyrir landsbyggðina núna og stærsta pólitíska deilumál sem er hér uppi. Ég get ekki skilið það frá þessari umræðu. Ekki þar fyrir að ágætis mál eru í þessari tillögu. Talnaverkið er að vísu ekki byggt á miklum vísindum en ég ætla ekki að fara að tala um það sérstaklega.

Hins vegar get ég alls ekki fallist á að ekki megi í byggðamálaumræðu minnast á einhverja þætti atvinnumála sem eru þó eitt stærsta verkefni sem í gangi er. Það get ég ekki skrifað undir.

Við erum að vísu ekki búin að selja Landssímann. Engar ákvarðanir hafa verið teknar um það hvenær það verður eða hvort það verður gert. Það er búið að breyta honum í hlutafélag. En ég verð þó að benda á að nýjustu fréttir af Landssímanum hf. eru að hann hefur stórlækkað gjaldskrá sína og gert það mögulegt að gefa út töluverð áform fyrir byggðarlögin í landinu að nýta sér hina nýju tækni í gagnaflutningum sem er undirstaða þeirrar atvinnuuppbyggingar sem skýrsla Iðntæknistofnunar og Byggðastofnunar kveður á um.