Sérstakar aðgerðir í byggðamálum

Þriðjudaginn 19. október 1999, kl. 18:53:57 (722)

1999-10-19 18:53:57# 125. lþ. 12.9 fundur 10. mál: #A sérstakar aðgerðir í byggðamálum# þál., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 125. lþ.

[18:53]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég tek eftir því að lagt er til að veita verulegt fé til nýsköpunar og eflingar á atvinnulífi í formi framlaga til atvinnuþróunarfélaga. Það er ekki getið um það í tillögunni að ekki sé ætlast til þess að þeir sem taka við þeim peningum verji þeim ekki til þess að byggja upp atvinnulíf á tilteknum sviðum. Það er ekki orð um það í tillögunni að tillögumenn séu á móti því að menn sem fá þá peninga vinni að því að koma upp stóriðju á sínu landsvæði.

Hvað ef Eyfirðingar fengju verulegan hluta af þessum peningum til eflingar atvinnulífi og nýsköpunar og verðu þeim peningum til að vinna að því að koma upp stóriðju í Eyjafirði? Munu þá flutningsmenn tillögunnar segja: ,,Það var ekki ætlast til þess af okkar hálfu að það yrði gert. Við erum á móti þessu``?

Það sem þessi umræða um atvinnumál hefur dregið fram er að helsti veikleiki flutningsmanna er stefnuleysi þeirra í atvinnumálum annars vegar og hins vegar andstaða við það helsta sem er að gera á því sviði á landsbyggðinni. Ég hef skilið málflutning vinstri grænna á Alþingi til þessa á þann veg að þeir vildu að Fljótsdalsvirkjun færi í umhverfismat, en að þeir væru ekki andvígir því að virkjunin yrði reist, m.a. vegna þess að formaður þeirra samtaka stóð að því hér á Alþingi að búa svo um hnútana að Fljótsdalsvirkjun færi ekki í umhverfismat. Menn geta lesið þingtíðindin um það mál og menn sjá ekki eitt einasta orð þar sem vikið er að því að menn hafi þá kröfu uppi, heldur þvert á móti. Það er upplýst að menn gengu svona frá málum vegna þess að menn voru sammála um þá framkvæmd á þeim tíma. (Gripið fram í.)