Sérstakar aðgerðir í byggðamálum

Þriðjudaginn 19. október 1999, kl. 19:06:52 (725)

1999-10-19 19:06:52# 125. lþ. 12.9 fundur 10. mál: #A sérstakar aðgerðir í byggðamálum# þál., JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 125. lþ.

[19:06]

Jón Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. 3. þm. Norðurl. v. beindi til mín spurningu um hvort fjárln. mundi reiða fram 250 milljónir í húshitunarkostnað og 70 milljónir í jöfnun á námskostnaði. Ég vil benda á að þær tillögur til hækkunar sem hafa komið á þessum liðum undanfarin ár hafa komið í gegnum vinnu fjárln. en ég vil engar yfirlýsingar gefa um það hér hvaða tillögur verða í því efni.

Ég endurtek þær yfirlýsingar sem ég hef haft í umræðunni og eins við 1. umr. fjárlaga að ég ætlaði að lesa saman fjárlagafrv. og þá þál. um byggðamál sem var samþykkt í vor. Hins vegar er það misskilningur að tillögur byggðanefndar forsrh. hafi lagagildi eða gildi sem ... (Gripið fram í: Byggðanefnda flokkanna. Forsrh. lofaði efndum ...) Já, byggðanefndir flokkanna, við samþykktum þáltill. um byggðamál og ég mun leggja vinnu í að kanna hvernig fjárlagafrv. rímar við hana. Ég vil ekki gefa neinar yfirlýsingar um það hvaða lyktir sú yfirferð fær. Við munum fjalla um þetta í fjárln. við fjárlagagerðina.

Varðandi fasteignaskattinn er í stjórnarsáttmála ákvæði um að breyta því fyrirkomulagi sem nú er á fasteignaskattinum. Hins vegar er ég þeirrar skoðunar að það verði þá að finna annan tekjustofn í staðinn fyrir minnstu og fátækustu sveitarfélögin sem mundu tapa tekjustofnum við þessa breytingu. En það breytir því ekki að það er ákvæði um það að breyta þessu fyrirkomulagi og ég vil vinna að því.