Sérstakar aðgerðir í byggðamálum

Þriðjudaginn 19. október 1999, kl. 19:09:10 (726)

1999-10-19 19:09:10# 125. lþ. 12.9 fundur 10. mál: #A sérstakar aðgerðir í byggðamálum# þál., KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 125. lþ.

[19:09]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Ég vil aðeins ítreka það og segja, eins og hér var gripið fram í, að svokölluð byggðanefnd forsrh. var þverpólitísk nefnd, skipuð fulltrúum allra þingflokka sem sátu á 123. þingi. Hún skilaði þverpólitískri niðurstöðu. Þverpólitísk samstaða var um að skila tillögum sem kallaðar voru bráðaaðgerðir í byggðamálum. Fyrsti liðurinn var sá sem við vorum að ræða um áðan og hv. þm. Jón Kristjánsson segir að þessar tillögur hafi ekki lagagildi. Það er alveg hárrétt. En þær hljóta að hafa töluvert gildi þegar hæstv. forsrh. hefur margoft lýst því yfir í þessum ræðustól að það muni verða tryggt fé til þessara þátta við fjárlagagerðina.

Þess vegna spyr ég enn einu sinni: Ætla stjórnarþingmenn ekki að standa við þetta atriði? Eða voru þessar tillögur eins og einn frambjóðandi Framsfl. lýsti í kosningabaráttunni? Hann kallaði nefndina aldrei byggðanefnd forsrh. Hann kallaði nefndina nefnilega gulrótarnefndina. Þingmannsefnið sem þá var komst nú ekki að, hann kallaði þetta gulrótarnefndina. Það er kannski það sem ég er að spyrja eftir. Var það virkilega svoleiðis? Ég leit ekki þannig á það, mér fannst allir vinna þetta af heilindum.

Þáltill. um byggðamál sem hv. þm. vitnaði í er ágæt svo langt sem hún nær. En það er lítið fé tryggt með henni. Ég spyr bara enn og aftur: Ætla menn virkilega ekki að standa við þau loforð sem forsrh. gaf úr þessum ræðustól um að í fjárlögum ársins 2000 yrði stigið eitt skref af þremur til að jafna þessa þætti og uppfylla þessa þætti sem fólk kvartar um sem fyrsta og annað atriði um erfiðleika við það að búa úti á landi? Ég kalla eftir svörum frá talsmönnum ríkisstjórnarinnar og þeim framsóknarmönnum sem hafa gegnt hlutverki forsrh.