Breytt rekstrarform Ríkisútvarpsins

Miðvikudaginn 20. október 1999, kl. 13:53:52 (744)

1999-10-20 13:53:52# 125. lþ. 13.3 fundur 26. mál: #A breytt rekstrarform Ríkisútvarpsins# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., SJS
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 125. lþ.

[13:53]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Þetta leikrit sjálfstæðismanna í málefnum Ríkisútvarpsins hér er kostulegt. Það er stórbrotið að sjá Sjálfstfl. draga upp um sig sauðargæru þegar kemur að málefnum þessarar stofnunar. Það að leggja niður útvarpsráð og háeffa útvarpið væri auðvitað ekkert annað en undirbúningur þess að einkavæða eða fullkomna einkavinavæðingu Ríkisútvarsins sem er á fullri ferð í tíð Sjálfstfl. Sjálfstfl. á að láta Ríkisútvarpið í friði, hætta að leggja það í einelti og hætta að reyna að eyðileggja það innan frá. Ætli það geti ekki verið ein ástæðan fyrir því að mórallinn er þar ekki eins og skyldi. (Gripið fram í.)

Hvað ætla menn að gera á landsfundum Sjálfstfl. ef engin verður Rás 2 og ekki hægt að heimta að hún verði seld? Hvað ætla Heimdallur og SUS þá að hafa fyrir stafni? Ég held að sjálfstæðismönnum væri sæmra að hætta þessum skrípaleik og skammast sín fyrir framkomuna við Ríkisútvarpið.