Breytt rekstrarform Ríkisútvarpsins

Miðvikudaginn 20. október 1999, kl. 13:57:11 (747)

1999-10-20 13:57:11# 125. lþ. 13.3 fundur 26. mál: #A breytt rekstrarform Ríkisútvarpsins# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., KolH
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 125. lþ.

[13:57]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Virðulegi forseti. Það mál sem hér ber á góma er alvarlegt og um það ríkir ekki pólitísk sátt. Ég kem upp í tilefni orða hv. þm. Péturs Blöndals um menningarlegt og uppeldislegt hlutverk Ríkisútvarpsins. Það er óumdeilanlega hlutverk Ríkisútvarpsins að vera menningarstofnun. Það er í lögum um ríkisútvarp og ég hef ætíð litið svo á að útvarpið beri þá skyldu hvað þyngst á herðum að útvarpa um land allt menningarefni, dægurmenningarefni og klassísku menningarefni. Það er skylda okkar stjórnmálamanna að standa vörð um þetta hlutverk Ríkisútvarpsins.

Við vitum að í útlöndum hafa stórar ríkisstofnanir menningarlegu hlutverki að gegna og hafa sinnt þeirri skyldu af mikilli reisn. Ég á þá von til handa Ríkisútvarpinu að stjórnmálamenn á Íslandi standi með þessu hlutverki Ríkisútvarpsins, geri því kleift að halda áfram að vera ríkisstofnun og efli menningarlegt og uppeldislegt hlutverk þess.