Endurskoðun laga um mat á umhverfisáhrifum

Miðvikudaginn 20. október 1999, kl. 14:03:03 (750)

1999-10-20 14:03:03# 125. lþ. 13.5 fundur 34. mál: #A endurskoðun laga um mat á umhverfisáhrifum# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi KolH
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 125. lþ.

[14:03]

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir):

Virðulegi forseti. Svo sem kunnugt er er í lögunum um mat á umhverfisáhrifum ákvæði sem gerir stjórnvöldum skylt að endurskoða lögin eigi síðar en samfara endurskoðun á skipulags- og byggingarlögum. Sú endurskoðun fór fram árið 1997 og hefur endurskoðun á lögunum um mat á umhverfisáhrifum því dregist í tvö ár. Af því tilefni spyr ég hæstv. umhvrh.:

,,1. Hvað veldur því að ekki hefur enn verið lagt fram frumvarp til nýrra laga um mat á umhverfisáhrifum þrátt fyrir skýlaus lagafyrirmæli um að endurskoðun laga nr. 63/1993 færi fram jafnhliða endurskoðun skipulags- og byggingarlaga sem lokið var með lagasetningu vorið 1997?

2. Hvenær hyggst ráðherra leggja frumvarpið fram og hvenær er áætlað að lögin öðlist gildi?

3. Hvaða þýðingu hafa ákvæði tilskipunar ESB nr. 97/11/EC frá 3. mars 1997, sem Íslandi bar að lögfesta í síðasta lagi 15. mars 1999, fyrir stöðu og framkvæmd laga nr. 63/1993, um mat á umhverfisáhrifum?``

Varðandi þessa tilskipun ESB nr. 97/11/EC þá lýtur hún að því að ríkjum þeim sem aðild eiga að EES-samningnum er gert að hlíta reglum sem Evrópusambandið setti árið 1997 og gaf ríkjunum umþóttunartíma til 15. mars 1999 með að lögfesta. Að mínu viti hefur hér orðið misbrestur á. Íslensk stjórnvöld hefðu átt að endurskoða lög um mat á umhverfisáhrifum og koma þessum nýju reglum frá EES inn í viðkomandi lög. Það hefur ekki verið gert og það er tilefni þessarar fyrirspurnar.