Endurskoðun laga um mat á umhverfisáhrifum

Miðvikudaginn 20. október 1999, kl. 14:10:16 (752)

1999-10-20 14:10:16# 125. lþ. 13.5 fundur 34. mál: #A endurskoðun laga um mat á umhverfisáhrifum# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi KolH
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 125. lþ.

[14:10]

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. umhvrh. fyrir þau svör sem hér voru gefin. Ég hlakka til að fá að sjá þetta frv. sem við eigum sem sagt von á að fá lagt fram á næstu vikum.

Virðulegi forseti. Mér þykir þó vert að gera athugasemd við þau orð hæstv. umhvrh. að komið hafi fram í máli manna að ótímabært hafi verið árið 1997 að endurskoða lögin um mat á umhverfisáhrifum. Samkvæmt mínum upplýsingum veit ég að frv. hefur verið á sveimi og til umsagnar ansi lengi. Mér er engin launung á því að það sem liggur að baki þessari fyrirspurn er bráðabirgðaákvæði II í lögunum um mat á umhverfisáhrifum, bráðabirgðaákvæði sem við höfum deilt um varðandi lögformlegt umhverfismat á Fljótsdalsvirkjun. Að mínu áliti er líftími þess ákvæðis orðinn tveimur árum lengri en upphaflega var hugsað og tveimur árum lengri en góðu hófi gegnir.

Mér er kunnugt um að frv. sem verið hefur til umræðu og í umsagnarferli hefur ekki að geyma þetta bráðabirgðaákvæði. Þess vegna vek ég athygli á þessu nú, að í hv. umhvn. Alþingis er til umræðu þetta sérstaka bráðabirgðaákvæði og þáltill. um að lögformlegt mat fari fram á Fljótsdalsvirkjun.

Virðulegi forseti. Það lítur óneitanlega út fyrir að stjórnvöld ætli sér að draga lappirnar í þessu máli og fresta því að leggja fram nýtt frv. þar til tryggt sé að Fljótsdalsvirkjun fari í gegn á bráðabirgðaákvæði í núgildandi lögum sem löngu er orðið úrelt.