Gerð vega og vegslóða í óbyggðum

Miðvikudaginn 20. október 1999, kl. 14:53:31 (771)

1999-10-20 14:53:31# 125. lþ. 13.7 fundur 53. mál: #A gerð vega og vegslóða í óbyggðum# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi KolH
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 125. lþ.

[14:53]

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. umhvrh. svörin við fyrirspurninni en vil gera athugasemd við þá vegalagningu sem hér er til umræðu.

Mér þykir nauðsynlegt fyrir alþingismenn að velta fyrir sér slóðum sem hafa myndast í tímans rás og eru algerlega ásættanlegir í landinu þannig að jafnvel um áratuga skeið hafi verið hefð fyrir þeim. Þegar svona slóðum á að breyta þannig að vegurinn verður uppbyggður og við hættum að keyra yfir árnar öðruvísi en á ræsum eða litlum brúm, þá þykir mér rétt að við skoðum það alveg sérstaklega því að slóði getur ekki umyrðalaust, að mínu mati, breyst í uppbyggðan veg með ræsagerð.

Virðulegi forseti. Mér þykir vænt um að heyra að á Landsvirkjun eða Vegagerðinni skuli hvíla sú skylda að frá þessum rannsóknarvegum sem við ræddum hér verði gengið þannig að ummerki þeirra verði afmáð. Ég ber sannarlega þá von í brjósti að það verði gert þannig að ekki sjáist nein ör eftir þó að ég vissulega efist um að það sé hægt í tilfelli vegarins utan í Fremri-Kárahnjúk því hann er satt best að segja skelfilega staðsettur og ég sé ekki í hendi mér að hægt verði að afmá það ör.

Ég vil líka nefna í lokin hreindýraveiðimenn á svæðinu fyrir norðan Vatnajökul. Þeir hafa stundað það að keyra utan vega. Þeir eru jafnvel farnir að elta dýrin uppi á jeppunum sínum sem mér þykir ekki til eftirbreytni. Og þar sem einn hefur farið fer annar. Það virðist vera að Brúaröræfi og öræfin á Fljótsdalsheiðinni séu að verða sundurskorin af slóðum af þessu tagi. Við þessu verðum við að bregðast.