Fréttir um geymslu kjarnorkuvopna á Íslandi

Miðvikudaginn 20. október 1999, kl. 14:58:21 (773)

1999-10-20 14:58:21# 125. lþ. 13.96 fundur 88#B fréttir um geymslu kjarnorkuvopna á Íslandi# (umræður utan dagskrár), Flm. MF (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 125. lþ.

[14:58]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Enn eina ferðina berast í fjölmiðlum þær fréttir að hér á landi hafi verið geymd kjarnorkuvopn. Slíkar fréttir hafa áður ævinlega verið bornar til baka af íslenskum og bandarískum stjórnvöldum. Nú er þessu engu að síður haldið fram í grein í vísindatímariti þar sem virtir vísindamenn birta niðurstöður rannsókna sinna. Niðurstöður þeirra eru þær að Bandaríkjamenn hafi með leynd komið fyrir kjarnorkusprengjum til geymslu í 15 löndum og samkvæmt lista sem birtur er í greininni er Ísland eitt þessara landa.

Rannsókn þessara fræðimanna byggir á gögnum frá bandaríska varnar\-mála\-ráðu\-neyt\-inu um tímabilið frá 1945 til 1977 og telja þeir sem rannsóknina unnu að þó að í gögnum varnarmálaráðuneytisins hvíli leynd yfir nöfnum þeirra landa sem hlut eiga að máli, þá geti þeir séð með aðstoð annarra gagna hver löndin eru. Þeir hljóta að telja sig hafa örugga vissu því það er mikill ábyrgðarhluti að birta slíkan lista í vísindatímariti þar sem krafa er gerð um vönduð vinnubrögð. Hér virðist því ekki vera um neina flugufregn að ræða eins og stundum áður.

Í niðurstöðum áðurnefndra rannsókna segir að kjarnorkuvopn hafi verið geymd hér á landi árin 1956--1959. Blaðið Washington Post birtir þessa frétt í dag og hefur eftir sendiráðsritara Íslands í Washington að ríkisstjórn Íslands hafi áður verið spurð um hvort kjarnorkuvopn hafi verið geymd á Íslandi en ávallt svarað því til að stjórnvöldum væri ekki kunnugt um það. Og talsmaður bandaríska varnarmálaráðuneytisins sagði í samtali við blaðið að þar á bæ yrði hinni hefðbundnu afstöðu haldið fram að staðfesta hvorki né neita. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem þessi mál koma til umræðu á hv. Alþingi og löngu orðið tímabært að umræðunni ljúki þannig að Alþingi og þjóðin fái áreiðanlegar upplýsingar. Málið er mjög alvarlegt ef rétt reynist. Stjórnvöldum ber að krefjast þess að þeirri leynd sem hvílt hefur yfir skjölum sem Ísland varða verði aflétt þannig að umræðan byggist ekki í framtíðinni á líkum og getgátum. Málið er of alvarlegt til þess að svo sé með það farið.

Það hefur verið og er yfirlýst stefna íslenskra stjórnvalda að hér séu ekki geymd kjarnorkuvopn. Ef sú stefna hefur ekki verið virt er verið að vanvirða íslensk stjórnvöld og sjálfsákvörðunarrétt þjóðarinnar. Má vera að þær staðhæfingar sem settar eru fram í dag veki harðari viðbrögð vegna þess að öllum er í fersku minni það sem fram kom í Danmörku fyrir ekki svo löngu síðan og varðar einmitt geymslu kjarnorkuvopna þar sem röngum upplýsingum var haldið að þingi og þjóð. Það er nauðsynlegt að hreinsa þetta út, að Alþingi fái óyggjandi upplýsingar um málið og til þess að það geti gerst hljóta íslensk stjórnvöld að fara fram á að leynd verði að fullu aflétt af þeim gögnum er málið varða.

Virðulegi forseti. Þetta á ekki að vera mál sem skilur að stjórn og stjórnarandstöðu á hv. Alþingi. Þetta mál snýst um að stefna íslenskra stjórnvalda sé virt og um möguleika okkar til að fylgjast með því að henni sé framfylgt. Þetta snýst um sjálfsákvörðunarrétt þjóðarinnar. Því beinum við þeim spurningum til hæstv. forsrh. í fjarveru utanrrh. hvort stjórnvöld hafi kannað hvort staðhæfingar sem settar eru fram í umræddri grein séu réttar og hvort hæstv. ríkisstjórn muni fara fram á það við bandarísk stjórnvöld að leyndinni yfir þeim gögnum er varða Ísland verði að fullu aflétt. Er hæstv. forsrh. tilbúinn til að stuðla að því að skipuð verði á Alþingi sérstök rannsóknarnefnd sem fari ofan í málið og skili skýrslu til Alþingis?