Fréttir um geymslu kjarnorkuvopna á Íslandi

Miðvikudaginn 20. október 1999, kl. 15:13:36 (778)

1999-10-20 15:13:36# 125. lþ. 13.96 fundur 88#B fréttir um geymslu kjarnorkuvopna á Íslandi# (umræður utan dagskrár), TIO
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 125. lþ.

[15:13]

Tómas Ingi Olrich:

Herra forseti. Það er athyglisvert að menn gefa sér það, eins og sést í frétt DV þar sem Steingrímur J. Sigfússon er spurður um þetta mál, að þessi fréttaflutningur sé réttur. Það er afar athyglisvert. En í fréttaflutningi í erlendum blöðum af þessu máli er alveg ljóst og kemur þar alveg skýrt fram að grundvöllur fréttarinnar eru hreinar getgátur um að Ísland sé á lista yfir lönd þar sem bandaríski herinn hafi geymt kjarnavopn sín.

Það er rétt að undanfarið hafa bandarísk stjórnvöld verið að aflétta leynd varðandi gögn um staðsetningu kjarnavopna. Þar á meðal er listi yfir lönd þar sem kjarnvopn hafa verið geymd, en listinn hefur að hluta til verið gerður aðgengilegur. Þennan lista hafa heimildarmennirnir séð og ég reyndar einnig en í honum er ekki að finna neinar upplýsingar um að hér á landi hafi verð geymd kjarnavopn, ekki neinar upplýsingar. Hluti af þessum lista flokkast enn undir trúnaðarmál og heimildarmennirnir gefa sér að þar sé að finna upplýsingar um kjarnorkuvopn á Íslandi. Ekki er rannsóknin merkilegri en þetta. Í umfjölluninni kemur skýrt fram að engar heimildir eru aðrar en getgátur fyrir þessu. Það stendur því óhaggað sem áður hefur verið upplýst af hálfu íslenskra stjórnvalda og bandarískra stjórnvalda að hér hafi ekki verið kjarnavopn enda engin ósk komið fram um það frá bandarískum stjórnvöldum. Um þetta liggja fyrir mjög ítarlegar upplýsingar og heimildir í gögnum utanrmn. sem nefndarmönnum er frjálst að skoða sem trúnaðarmál og þar kemur þetta fram alveg tvímælalaust.