Fréttir um geymslu kjarnorkuvopna á Íslandi

Miðvikudaginn 20. október 1999, kl. 15:22:19 (782)

1999-10-20 15:22:19# 125. lþ. 13.96 fundur 88#B fréttir um geymslu kjarnorkuvopna á Íslandi# (umræður utan dagskrár), félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 125. lþ.

[15:22]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég held að óhætt hefði verið að bíða með þessa umræðu eftir því að hæstv. utanrrh. kæmi heim. Þetta eru atburðir sem eiga að hafa gerst á árunum 1956--1959. Ég hef út af fyrir sig góðan skilning á því að þingmenn hafi áhuga á því að taka þetta mál upp og þá kannski frekast til umfjöllunar í utanrmn. til að byrja með til að tryggja vandaðri málsmeðferð.

Út af fyrir sig hef ég ekki aðstöðu til að meta hvort einhver fótur geti verið fyrir þessari frétt í Washington Post né heldur hvort hér hafi verið á ferðinni kafbátar eða flugvélar sem hafi borið kjarnavopn en ef svo væri hefði það verið skýrt brot af hálfu Bandaríkjamanna. Mér finnst að tímasetningin geri það mjög ósennilegt að fréttin geti verið á rökum reist. Ríkisstjórnin sem sat 1956 var undir forsæti Hermanns Jónassonar. Afstaða Hermanns til hersins var alkunn. Hermann var ákaflega tortrygginn gagnvart ásælni annarra þjóða og hafði meira að segja forgöngu um að Lufthansa var á sínum tíma neitað um lendingaraðstöðu sem kom sér vel síðar og hefðu Bandaríkjamenn komið hingað með kjarnavopn á þessum tíma þá hefði það verið ótrúleg ögrun og ákaflega óskynsamleg. Þar af leiðandi á ég erfitt með að trúa þessari frétt.