Fréttir um geymslu kjarnorkuvopna á Íslandi

Miðvikudaginn 20. október 1999, kl. 15:26:31 (784)

1999-10-20 15:26:31# 125. lþ. 13.96 fundur 88#B fréttir um geymslu kjarnorkuvopna á Íslandi# (umræður utan dagskrár), Flm. MF
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 125. lþ.

[15:26]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil taka það fram í upphafi að við óskuðum eftir því, þingflokkur Samfylkingarinnar, að annað\-hvort yrði um utandagskrárumræðu að ræða eða þá að hæstv. forsrh. kæmi í upphafi þingstarfa og greindi okkur frá því á hvern hátt ríkisstjórnin hygðist svara þeim fréttaflutningi sem hefur verið í morgun. Við vorum hins vegar tilbúin að bíða með það ef hæstv. utanrrh. væri væntanlegur til þingstarfa á morgun en svo reynist ekki vera og hann ekki væntanlegur til landsins fyrr en á föstudag, og í næstu viku er þingið að sinna öðrum störfum en þingfundum.

Hins vegar hefði verið fullkomlega eðlilegt í kjölfar þessara frétta að hæstv. forsrh. hefði sjálfur haft frumkvæðið að því að koma í upphafi þingstarfa í dag með tilkynningu frá ríkisstjórninni og segja okkur hvernig þeir mundu bregðast við. Það er hreint með ólíkindum að það skuli vera talað um upphlaup og komið með staðhæfingar um það hvaða hugur liggi að baki þegar beðið er um umræðu sem þessa þegar svona alvarlegar fullyrðingar eru settar fram, fullyrðingar sem fræðimenn segjast byggja á trúverðugum gögnum. Ég treysti mér ekki til eins og hæstv. forsrh. að segja að þetta sé allt saman úr lausu lofti gripið. Hæstv. ríkisstjórn ber skylda til þess að athuga hvort svo sé. Ef það liggur fyrir eiga þær upplýsingar að koma fram hér. En við höfum ekki haft aðstöðu til þess að meta það í morgun og þær upplýsingar lágu ekki fyrir hjá utanrmn. þegar hún fundaði í morgun.

Um ræðu hæstv. menntmrh. ætla ég að hafa sem fæst orð því að hann er aftur sokkinn í þessa kaldastríðshugsun og hefur aldrei getað skipt um forrit.