Miðstöð sjúkraflugs á Akureyri

Miðvikudaginn 20. október 1999, kl. 15:47:10 (791)

1999-10-20 15:47:10# 125. lþ. 13.9 fundur 92. mál: #A miðstöð sjúkraflugs á Akureyri# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi SJS
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 125. lþ.

[15:47]

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að beina fsp. til hæstv. heilbrrh. sem varðar skipulag sjúkraflugs í landinu með hefðbundnum flugvélum og þá sérstaklega þeim möguleika að miðstöð slíks sjúkraflugs verði byggð upp á Akureyri. Af ýmsum ástæðum hefur fyrirkomulag sjúkraflugs verið mjög til umræðu meðal heilbrigðisstétta og ekki síst lækna og annars heilbrigðisstarfsfólks á landsbyggðinni sem það brennur mikið á. Þetta stafar af óskum um betri og sérhæfðari þjónustu en hefur verið í boði hingað til. Þetta stafar af því að svæðisflugfélög sem hafa áður verið til staðar og hafa getað sinnt þessari þjónustu á Norðurlandi, Austfjörðum og Vestfjörðum eru að hverfa af sjónarsviðinu eða flugvélakostur þeirra hentar ekki lengur til þessara þarfa og af ýmsum fleiri ástæðum hefur vaxandi umræða, svo ekki sé sagt óánægja, orðið um þá stöðu sem málin eru í.

Aðstaðan er til að mynda hvað landsbyggðina snertir og einkum þá landshluta sem fjærst liggja Reykjavík algjörlega ósambærileg og þjónustan miklu lakari en á t.d. við um suðvesturhorn landsins þar sem menn hafa bæði góðar samgöngur á landi og svo björgunarþyrlu með mannaðri vakt á bak við og þar á meðal lækni sem fylgt getur í sjúkraflug.

Draumur manna er því sá að útbúin verði sérhæfð og öflug sjúkraflugvél sem geti annast um allt venjulegt sjúkraflug og sjúkraflutninga, þar með talið flutninga á líffæraþegum, flutning á sjúklingum t.d. frá Grænlandi og Færeyjum, en vaxandi samskipti eru við þau lönd á þessu sviði, o.s.frv.

Það er nokkuð ljóst að ýmsir kostir eru því samfara að staðsetja slíka flugvél á Akureyri. Hún er vel staðsett með tilliti til þeirra landshluta sem þarf sérstaklega að þjóna vegna fjarlægðar frá Reykjavík með flugvél með hefðbundnum vængjum og þar er til staðar stórt sérhæft sjúkrahús og þekking og mannafli bæði til að manna og gera út slíka flugvél og einnig að setja upp vaktir á bak við hana hvað starfsfólk snertir.

Það er reyndar einnig svo að góð samstaða, hygg ég, er um það að því væri vel fyrir komið að staðsetja slíka sérhæfða og öfluga sjúkraflugvél eða flugvélar á Akureyri. Augljósir kostir eru því samfara frá rekstrarlegu sjónarmiði að hafa þetta á einum stað á landinu og augljóst að þannig má stórbæta þjónustuna án þess að kostnaður fari úr böndum.

Tengt þessum hugmyndum eru tillögur og hugmyndir manna um að efla í leiðinni Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri og fleiri heilbrigðisstofnanir á svæðinu eins og háskólann og jafnvel heilsugæslustöðina á Akureyri, stærstu heilsugæslustöð landsins, sem ákveðna miðstöð landsbyggðarlækninga og hjúkrunar. Í því felst ekki að starfsemin verði dregin þangað frá öðrum stöðum heldur fyrst og fremst að þar verði ákveðinn tengipunktur og miðstöð sem ætti að geta nýst til að efla starfsemina alls staðar á landsbyggðinni. Enginn vafi er á því að í því væru fólgnir ýmsir kostir að sérhæfa stofnanir í heilbrigðisgeiranum að þessu leyti og ég minni á í því sambandi hugmyndir eða reyndar áform, sem þegar eru að koma til framkvæmda, um sérstakt framhaldsnám eða sérnám fyrir landsbyggðarlækna.

Ég hef því leyft mér af þessum ástæðum, herra forseti, og í framhaldi af tillögum sem m.a. lækningaforstjóri Fjórðungssjúkrahússins og héraðslæknir Norðurl. e. hafa unnið að að leggja spurningar fyrir hæstv. ráðherra:

,,Hver eru viðhorf ráðherra til tillagna um að gera Akureyri að miðstöð sjúkraflugs, annars en þyrluflugs, og efla um leið Fjórðungssjúkrahúsið og Háskólann á Akureyri og fleiri stofnanir á svæðinu sem miðstöð landsbyggðarlækninga/hjúkrunar?

Hefur farið fram athugun á þessum kosti af hálfu ráðuneytisins og ef svo er, hverjar eru niðurstöðurnar?``