Miðstöð sjúkraflugs á Akureyri

Miðvikudaginn 20. október 1999, kl. 15:50:37 (792)

1999-10-20 15:50:37# 125. lþ. 13.9 fundur 92. mál: #A miðstöð sjúkraflugs á Akureyri# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 125. lþ.

[15:50]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hefur beint þeirri fsp. til mín hvert viðhorf heilbrrh. sé til tillagna um að gera Akureyri að miðstöð sjúkraflugs og efla um leið Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri og fleiri stofnanir á svæðinu sem miðstöð landsbyggðarlækninga. Einnig er spurt hvort athugun hafi farið fram á þessum kostum af hálfu ráðuneytisins.

Ég hef látið gera úttekt á öllu sjúkraflugi á Íslandi og í skýrslunni eru einnig gerðar tillögur um framtíðarskipulag sjúkraflugs. Skýrslan gerir grein fyrir núverandi fyrirkomulagi sjúkraflugs í landinu, hvaða flugvélakostur er nýttur til þessara verkefna, hvernig hagar til með flugvelli og lendingarskilyrði, lýst er landfræðilegum og veðurfarslegum skilyrðum og hvaða áherslur og sjónarmið eru ríkjandi varðandi sjúkrahúsþjónustuna. Þá eru lagðar fram tölulegar upplýsingar í þessu sambandi, svo sem tíðni sjúkraflugs eftir landsvæðum og kostnaður. Í skýrslunni koma fram sjö tillögur um mismunandi rekstrarform sjúkraflugs og metið hve vel þau uppfylla ákveðnar öryggiskröfur.

Skýrslan hefur verið send til umsagna allra aðila sem koma að sjúkraflugi svo sem stjórnum allra heilbrigðisstofnana, héraðslæknum, landlækni, flugfélögum, Flugmálastjórn og aðilum sem koma að sjúkraflutningum. Um þessar mundir er ráðuneytið að fara yfir umsagnir sem borist hafa og í framhaldinu verða teknar ákvarðanir um framtíðarskipulag sjúkraflugs í landinu.

Hugmyndir sem hafa komið fram um að hafa miðstöð sjúkraflugs á Akureyri og efla um leið Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri eru athyglisverðar og mjög áhugaverðar og þær koma mjög vel til greina. Þegar er verið að efla Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri og með því er verið að styrkja heilbrigðisþjónustuna á landsbyggðinni. Hv. þm. nefndi sérstaklega í ræðu sinni áðan hvaða tillögur landlæknir er með í þessum efnum og þetta er allt til að styrkja þá stofnun sem er mjög mikilvæg, ekki bara Norðlendingum heldur landinu öllu.