Afgreiðsla tillögu um mat á umhverfisáhrifum Fljótsdalsvirkjunar

Fimmtudaginn 21. október 1999, kl. 10:41:32 (804)

1999-10-21 10:41:32# 125. lþ. 15.91 fundur 90#B afgreiðsla tillögu um mat á umhverfisáhrifum Fljótsdalsvirkjunar# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 125. lþ.

[10:41]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er hreint með ólíkindum hvernig hinir dagfarsprúðustu menn hvunndags, eins og t.d. hv. þm. Jón Kristjánsson, bregðast ævinlega við þegar umræður eru teknar upp um þetta mál. Er það orðið þannig að mönnum sér gjörsamlega fyrirmunað að ræða þessi mál á málefnalegum og yfirveguðum nótum? Ég fer að halda það. Þegar jafnvel rólyndið sjálft uppmálað, hv. þm. Jón Kristjánsson, kýs að bregðast svona við fullkomlega eðlilegri umræðu hér. Það hefur engu verið haldið fram um að vinna umhvn. að þessu máli væri á nokkurn hátt óeðlileg. Hér var sett fram sú ósk, og ég tel hana fullkomlega réttmæta og eðlilega undir þessum dagskrárlið, að þeirri vinnu yrði hraðað í ljósi aðstæðna sem upp eru komnar í þessu máli, og hafa út af fyrir sig verið ærin tilefni fyrir.

En það er ekki nema von að menn séu að vissu leyti tortryggnir í málinu vegna þess að hæstv. ríkisstjórn hefur boðað það að sniðganga umhvn. með því að fara með tillögu inn í iðnn. Það þarf ekki langt að sækja rökin fyrir því að menn hafi áhyggjur af þessu máli.

Ég vitna í flokksbróður hv. þm. Jóns Kristjánssonar, formann umhvn. sem opinberlega og í fjölmiðlum hefur reifað áhyggjur sínar af því að þessi taktík stjórnvalda og hans eigin flokksmanna sé hugsuð til þess að sniðganga umhverfisnefnd. Ég held því að steinum sé kastað úr glerhúsi, herra forseti, þegar hv. þm. Jón Kristjánsson reynir að snúa upp á hlutina eins og hér var gert af hans hálfu. Það er fullkomlega eðlilegt og réttmætt í ljósi aðstæðna að vakin sé athygli á þessum fréttum og það þýðir ekki fyrir stjórnarliða að gera dag eftir dag tilraunir til þess að gera lítið úr öllum hlutum sem hér koma upp eins og þeir eru að reyna að gera. Það er til marks um vondan málstað að menn þola ekki efnislegar umræður um hlutina. Staðreyndirnar blasa við í þeim efnum.