Afgreiðsla tillögu um mat á umhverfisáhrifum Fljótsdalsvirkjunar

Fimmtudaginn 21. október 1999, kl. 10:45:49 (806)

1999-10-21 10:45:49# 125. lþ. 15.91 fundur 90#B afgreiðsla tillögu um mat á umhverfisáhrifum Fljótsdalsvirkjunar# (aths. um störf þingsins), JónK
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 125. lþ.

[10:45]

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Hv. 3. þm. Norðurl. e. verður allaf hissa ef einhver andmælir honum í hv. Alþingi. (SJS: Ég var nú að verja annan þingmann.) Hann verður alveg steinhissa ef ég er honum ósammála. Hann þarf ekkert að vera hissa á því. Ég er honum ósammála um margt þó að þingmaðurinn sé vaskur maður og tali mikið úr ræðustól oft og tíðum. Ég er honum kannski sammála um eitthvað en það er kannski ekki mjög margt. En hann þarf ekkert að vera hissa á því þó að ég bregðist við í þessum ræðustól. Hann upplýsir það sjálfur að þetta mál sem talað er um sé í eðlilegum farvegi í umhvn. þingsins. Og hvert er þá tilefni þessarar umræðu? Tilefnið er bara að taka málið til efnislegrar umræðu undir liðnum um störf þingsins, þ.e. að sniðganga þennan lið og taka upp efnislega umræðu um málið. Ég ætla ekki að gera það. (SJS: Ert þú forseti hér?) Ég hef nógan ræðutíma (Gripið fram í.) til þess seinna.

Þetta gerist æ algengara að þessi liður í þingsköpunum sé notaður til efnislegrar umræðu um mál. Það er mergurinn málsins. Ég held að það séu nóg önnur tækifæri til þess að taka efnislega umræðu um þetta mál og kæruna til EFTA-dómstólsins án þess að taka það upp undir liðnum um störf þingsins.