Setning siðareglna í viðskiptum á fjármálamarkaði

Fimmtudaginn 21. október 1999, kl. 11:29:11 (821)

1999-10-21 11:29:11# 125. lþ. 15.2 fundur 24. mál: #A setning siðareglna í viðskiptum á fjármálamarkaði# þál. 20/125, Flm. BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 125. lþ.

[11:29]

Flm. (Bryndís Hlöðversdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er ekki forræðishyggja. Það er ekkert óeðlilegt við að ráðherra viðskiptamála á Íslandi sé falið að sjá um að stofnanir og fyrirtæki setji sér slíkar reglur. Þær eru siðareglur sem fyrirtækin munu síðan sjálf þurfa að meta hvort farið verður eftir og þeirra viðskiptavinir en þetta er fyrst og fremst hvatning til að slíkar reglur séu settar. Og það er ekkert óeðlilegt við það og engin forræðishyggja. Forræðishyggjan felst í því þegar menn ræða einstök mál og dæma einstök fyrirtæki siðlaus eða löglaus án þess að hvetja til þess um leið að settar verði einhverjar siðareglur sem fyrirtækin og viðskiptavinir þeirra fari síðan eftir.

Auðvitað geta siðareglur aldrei verið þvingandi. Þær koma til viðbótar öðrum reglum eins og lagareglum og öðrum stjórnvaldsfyrirmælum en þær geta ekki verið þvingandi í sjálfu sér. Þær eru fyrst og fremst siðareglur og geta aldrei verið hluti af einhverri forræðishyggju, herra forseti.