Setning siðareglna í viðskiptum á fjármálamarkaði

Fimmtudaginn 21. október 1999, kl. 11:31:18 (823)

1999-10-21 11:31:18# 125. lþ. 15.2 fundur 24. mál: #A setning siðareglna í viðskiptum á fjármálamarkaði# þál. 20/125, LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 125. lþ.

[11:31]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil taka fram í upphafi að það sem hér liggur fyrir er í fyrsta lagi tilraun okkar sem að málinu stöndum til að hefja umræðu um viðskiptasiðferði, fyrst og fremst að reyna að hefja þá umræðu sem víðast hvar er í löndunum í kringum okkur. Víðast hvar í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við er slík umræða löngu hafin. Þetta er tilraun okkar til að hefja slíka umræðu. Það hefði kannski mátt gerast fyrr, því að sá markaður sem við erum núna að tala um er ungur og er að þróast og ef við getum hafið þá umræðu strax í upphafi þess sem sá markaður þróast, þá held ég að það geti leitt til þess að markaðurinn þróist í heillavænlegri farveg en ella. Þetta er vitaskuld kjarni málsins í því sem hér fer fram.

Hv. þm. talaði um ákveðna forræðishyggju í þessum efnum. Þegar um siðareglur er að ræða, þá eru þær annars eðlis en lagareglur og ég er ekki sammála hv. þm. þegar hann talar um að hér sé einhvers konar forræðishyggja á ferðinni. Það er að mínu viti meira að segja langur vegur þar frá. Það getur verið verulegur munur á því hvort um forræðishyggju er að ræða eða hvort stjórnvöld beiti sér með ákveðnum hætti til að ýta einhverri ákveðinni þróun af stað. Hér er verið að leggja til að stjórnvöld beiti sér fyrir því að fyrirtæki setji sér siðareglur. Ég held, virðulegi forseti, að ég og hv. þm. Pétur Blöndal séum nokkuð samstiga í því hvað teljist æskileg viðmið í þeim efnum, þ.e. hvaða siðareglur við viljum að hér verði teknar upp.

Ég kom hingað fyrst og fremst til að nefna það að hér er á ferðinni tilraun þingflokks Samfylkingarinnar með hv. þm. Bryndísi Hlöðversdóttur í fararbroddi til að hefja umræður um viðskiptasiðferði og jafnframt að mótmæla því að einhver forræðishyggja sé á ferðinni.