Setning siðareglna í viðskiptum á fjármálamarkaði

Fimmtudaginn 21. október 1999, kl. 11:34:22 (825)

1999-10-21 11:34:22# 125. lþ. 15.2 fundur 24. mál: #A setning siðareglna í viðskiptum á fjármálamarkaði# þál. 20/125, LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 125. lþ.

[11:34]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er einn af þeim sem hafa gaman af því að hv. þm. Pétur Blöndal tekur jafnan þátt í umræðum og oft á tíðum fyllir hann á umræðu með ágætum athugasemdum. Hins vegar þykir mér miður að jafn vel gefinn maður og hv. þm. Pétur H. Blöndal er skuli vera með einhvern orðhengilshátt því ég get lesið fyrir hann eitthvað meira úr tillögunni ef hann vill heyra það. Annars get ég vitnað, með leyfi forseta, í grg. með tillögunni, en þar stendur:

,,Markmið reglnanna er að gefa viðmið fyrir siðlegt athæfi alls staðar á því svæði sem þær ná til, greiða fyrir virkri starfsemi verðbréfamarkaða og gæta almannahagsmuna. Í almennum ákvæðum er lögð áhersla á rétta og skýra upplýsingagjöf til almennings og að allir sitji við sama borð hvað hana varðar. Þá er lögð áhersla á að allir eigendur sams konar verðbréfa sem gefin eru út af sama fyrirtæki sitji við sama borð og að gætt sé réttar allra hlutabréfaeigenda til að njóta sömu kjara.``

Vel má vera, virðulegi forseti, að orða megi tillöguna á einhvern annan hátt en við erum fyrst og fremst að reyna að hefja þessa umræðu sem við vonumst til að leiði til þess að flýta þeirri þróun að fyrirtæki setji sér siðareglur. Ég ætla því að minna hv. þm. á, sem flutti um margt ágæta ræðu en tapaði sér aðeins í restina þegar hann mundi það skyndilega að hann er í stjórn en ekki stjórnarandstöðu og varð að finna sér eitthvað til að setja út á, að halda sig við efnislega umræðu, og þetta er það sem að er stefnt með tillöguflutningnum.