Setning siðareglna í viðskiptum á fjármálamarkaði

Fimmtudaginn 21. október 1999, kl. 11:36:08 (826)

1999-10-21 11:36:08# 125. lþ. 15.2 fundur 24. mál: #A setning siðareglna í viðskiptum á fjármálamarkaði# þál. 20/125, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 125. lþ.

[11:36]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Þetta síðasta var dálítið ómaklegt. Ég tel ekki að ég taki afstöðu til mála eftir því hvort stjórnarþingmenn eða stjórnarliðar flytja mál. Ég reyni ekki, bara til þess að vera á móti málinu, að hengja mig í einhver smáatriði. Ég er hjartanlega á móti því að skipa mönnum að taka upp siðareglur ef þeir vilja það ekki sjálfir og ef þeir sjá sér engan hag í því. Ég er raunverulega á móti því. Þess vegna er ég á móti þessari þáltill. eins og hún lítur út. En ég gæti vel hugsað mér að styðja hana ef henni yrði breytt í þá veru að ráðherra beiti sér fyrir því að fyrirtækin sjái sér hag í því að setja siðareglur. Ég væri til í það.

Svo kann ég aldrei við þegar fólk er að leggja mælikvarða á gáfnafar mitt.