Setning siðareglna í viðskiptum á fjármálamarkaði

Fimmtudaginn 21. október 1999, kl. 11:42:00 (830)

1999-10-21 11:42:00# 125. lþ. 15.2 fundur 24. mál: #A setning siðareglna í viðskiptum á fjármálamarkaði# þál. 20/125, MF (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 125. lþ.

[11:42]

Margrét Frímannsdóttir (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég hafði beðið um orðið þegar verið var að ræða um störf þingsins fyrr á þessum þingdegi en það hefur farið fram hjá hæstv. forseta. Tilefnið var að hér hafa menn uppi afsökun þess efnis að hægt er að fylgjast með umræðu af því að sjónvörpum hafi verið komið fyrir á skrifstofum hv. þingmanna.

Það er samt þannig að á Alþingi og í sölum Alþingis eiga að fara fram málefnalegar umræður um þau mál sem eru á dagskrá hverju sinni og að sjálfsögðu eiga hæstv. ráðherrar sem fara með viðkomandi málaflokka að vera á staðnum. Ef viðhorf er hins vegar að breytast þannig að nægjanlegt sé að fylgjast með framsöguræðum í sjónvarpi á skrifstofum, ef það er orðið almennt viðhorf meðal þingmanna, þá er það spurning hvort forsn. Alþingis á ekki að velta því fyrir sér hvort ekki sé þá heppilegt að umræðan fari fram á netinu þar sem flestir þingmenn hafa líka fengið nettengingu og hægt að fella niður fasta fundi þingsins því mætingin hér er hv. þm. ekki sæmandi. En auðvitað er það eins og alltaf að verið er að skamma þá sem mæta en þeir hv. þm. sem eiga skammirnar skilið eru ekki til staðar til að taka við þeim.