Setning siðareglna í viðskiptum á fjármálamarkaði

Fimmtudaginn 21. október 1999, kl. 11:43:42 (831)

1999-10-21 11:43:42# 125. lþ. 15.2 fundur 24. mál: #A setning siðareglna í viðskiptum á fjármálamarkaði# þál. 20/125, GÁS
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 125. lþ.

[11:43]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Það mál sem hér er á dagskrá og ber yfirskriftina: Setning siðareglna í viðskiptum á fjármálamarkaði, er auðvitað feikimikilvægt, ekki síst í ljósi þeirrar umfangsmiklu og veigaþungu umræðu sem átt hefur sér stað í allt sumar á hinum svokallaða fjármálamarkaði.

Á þeim vettvangi hafa farið fremstir í flokki forsvarsmenn ríkisstjórnarflokkanna, annars vegar hæstv. forsrh. og hins vegar hæstv. viðskrh. sem að nafninu til hefur forsjá þessara mála í sínum höndum en oftar en ekki virðast mál hafa þróast með þeim hætti að hæstv. forsrh. hefur tekið af honum völdin og sagt honum fyrir verkum. Það er auðvitað ekkert nýtt innan þessarar ríkisstjórnar. Þess er skemmst að minnast að hæstv. forsrh. oftar en einu sinni og oftar en tvisvar hirti fyrir opnum tjöldum fyrrv. hæstv. fjmrh. með fleygum orðum --- að svona gerðu menn ekki --- og fleira í þeim dúr. Hann er ekki hættur og hefur ítrekað í allt sumar látið í veðri vaka og sagt beint og óbeint að hæstv. viðskrh. hefði ekki tök á þessum málum og þá er ég fyrst og síðast að vísa til sölunnar á því ríkisfyrirtæki sem Fjárfestingarbanki atvinnulífsins er og hefur verið og kaup Orca-hópsins svokallaða á hlut sparisjóðanna í þeirri fjármálastofnun.

[11:45]

Sú umræða hefur kannski fyrst og síðast ekki snúist um það að menn hafi neins staðar verið að brjóta lög heldur hefur hún snúist um hvað er siðlegt og eðlilegt í viðskiptum af þessum toga. Fleygt er að menn höfðu á orði hér á árum áður og ekki síður á síðari tímum að sumt væri löglegt en siðlaust. Þessi þáltill. sem hér er lögð fram lýtur einmitt að grundvallarþáttum í þessum efnum, þ.e. að viðskiptalífið undirgangist þær siðareglur sem eru oft og einatt skrifaðar en stundum oftar óskrifaðar.

Hv. þm. Ásta Möller kom í stutt andsvar og tók undir með hv. þm. Pétri H. Blöndal. Þau eru þeir fulltrúar stjórnarliðanna sem hafa lagt orð inn í þessa umræðu. (PHB: Ég er sjálfstæður þingmaður.) Sagði ég ekki Sjálfstfl.? (PHB: Ég er ekki fulltrúi flokks. Ég er þingmaður.) Síðast þegar ég vissi var hv. þm. fulltrúi í Sjálfstfl. Hafi orðið breyting á því gerir hann væntanlega grein fyrir því hér á eftir.

Það kom hins vegar dálítið á óvart að þessir þingmenn báðir tveir skyldu kvarta og kveina og beiðast undan því að slíkar skrifaðar reglur yrðu settar. Í tilfelli Ástu kom það einkanlega mjög á óvart í ljósi þess að hún kemur úr þeim geira atvinnulífsins inn á hið háa Alþingi sem er heilbrigðiskerfið og þar eru einmitt skrifaðar siðareglur mjög ofarlega á blaði. Enginn æmtir né skræmtir yfir því. Það finnst öllum eðlilegt og sjálfsagt og þær siðareglur eru mjög veigaþungar og í engu veigaléttari en skrifuð lög og reglugerðir. Það hefur engum dottið í hug í því samhengi að tala um forræðishyggju yfir heilbrigðisstéttum þó að heilbrigðisstéttirnar undirgangist hver um sig tilteknar siðareglur. Það kemur mér mjög á óvart að það eigi allt í einu allt önnur lögmál að gilda um viðskiptalífið.

Ég minnist þess líka að hv. þm. Pétur H. Blöndal fór mikinn áður en hann kom inn í þessa stofnun og ræddi einmitt um það að ýmislegt ósiðlegt væri á ferðinni og það þyrfti að hreinsa til og sópa út í bankakerfinu. Hann komst með látum og miklum fyrirgangi inn í stjórn Íslandsbanka til þess að laga til og hreinsa upp ýmislegt sem þar mætti betur fara. Honum tókst að safna saman smáum hlutum og láta kjósa sig í stjórn þar til eins árs. Það fór ekki mikið fyrir stórum afrekum. En það var uppleggið á sínum tíma sem gerði það að verkum að hann varð kjörinn.

Það er allt of ríkjandi í okkar samfélagi að allt sé leyfilegt í viðskiptum. Þetta er bara bisness. Þetta hefur ekkert með mannleg samskipti að gera, ekkert með það að gera hvort einn troði öðrum um tær, að það sé bara einfaldlega eðlilegt í viðskiptum þar sem peningar eru annars vegar að frumskógarlögmálið ráði ríkjum. En það er ekki svo og það kemur á óvart ef önnur siðalögmál eiga að gilda hér á eyju í Norður-Atlantshafi heldur en fyrir vestan okkur og fyrir austan okkur. Hér hefur verið á það bent, og það er að finna í þessari ítarlegu greinargerð með þessari þáltill., að allt frá 1977 hefur Evrópusambandið og þá Efnahagsbandalagið, sett leikreglur um það hvernig beri að setja slíkar siðareglur. Og þar á einmitt, eins og hér er lagt til, einn aðili í hverju aðildarríki að sjá um að slíkar siðareglur séu settar, ekki með því að skrifa þær niður fyrir hvert einstakt fyrirtæki heldur hafa yfirumsjón með því að þær séu settar. Þetta má finna á bls. 6 í greinargerðinni.

Í Bandaríkjunum, Mekka kapítalismans, er þetta einnig svona. Þar finnst engum þetta óeðlilegt og þar talar enginn um forræðishyggju í því samhengi að ákveðnar siðareglur gildi. Auðvitað er það svo þegar skrifaðar siðareglur eru annars vegar, eins og raunar í lífinu sjálfu og þegar um er að ræða lög eða reglugerðir, að alltaf eru einhverjir sem brjóta þær, því miður. Það er bara þannig. En það þýðir ekki að við hættum að setja hegningarlög, hættum að setja umferðarlög, ef einhver keyrir of hratt. Nei, auðvitað ekki. Við freistum þess að gera lög þannig úr garði að þau séu í samræmi við þann anda og samfélagsvilja sem ríkjandi er, að þau séu ekki úr fasa heldur í fasa og samræmist tilfinningu og siðferðisvitund hvers einstaklings í þessu landi á hverjum tíma og á hverjum stað.

Herra forseti. Ég held að með þessari tillögu séum við einmitt á málefnalegan hátt að draga inn í umræðuna efnisleg og handföst atriði sem hafa verið ofarlega á baugi í allt sumar og mjög brýnt er að koma á í okkar samfélagi og viðskiptalífi. Viðskiptalíf okkar hefur tekið mjög örum breytingum á mjög skömmum tíma, kannski allt of örum breytingum á allt of skömmum tíma. Og kannski ekki síst í því ljósi er brýnt fyrir þá sem vinna innan geirans og fyrir viðskiptavini að menn geti byggt á skrifuðum leikreglum er lúta að samskiptum einstaklinga, samskiptum fyrirtækja, samskiptum sem byggja á gagnkvæmri virðingu og hárri siðferðisvitund.