Setning siðareglna í viðskiptum á fjármálamarkaði

Fimmtudaginn 21. október 1999, kl. 11:52:04 (832)

1999-10-21 11:52:04# 125. lþ. 15.2 fundur 24. mál: #A setning siðareglna í viðskiptum á fjármálamarkaði# þál. 20/125, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 125. lþ.

[11:52]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Það er enn verið að gefa minni persónu einkunn. Það fór lítið fyrir afrekum mínum í bankaráði Íslandsbanka, segir hann. Hv. þm. hefur kynnt sér rækilega og veit vel hvað ég gerði þar og gerði ekki, en ég fór ekki inn í Íslandsbanka á grundvelli siðferðisvandamála heldur vegna þess að hagnaður fyrirtækisins var mínus 600 millj. og ég sætti mig ekki við það sem hluthafi. Það var þess vegna sem ég fór inn og það vill svo til að fyrirtækið hefur skilað hagnaði síðan, hvort sem það er mér að þakka eða ekki, ég veit það ekki. (Gripið fram í: Ertu búinn að selja bréfin?) Já, ég er búinn að selja þau.

Herra forseti. Það er lagt til að setja siðareglur ofan frá. Mín reynsla af samskiptum við fólk er sú að þeir sem segja oftast ,,ég segi alveg satt``, það eru lygararnir. Þeir sem aldrei segja: ,,Ég segi satt``, það eru þeir sem segja satt. Og það að menn setji sér siðareglur um að þeir ætli ekki að ljúga er ekki gott ef það er þvingað ofan frá, þ.e. ef þeir sjá ekki hag í því sjálfir. Ef þeir sjá það ekki sem verðmæti og eign að vera með siðareglur, þá er það verra en ekki. Þá er það skálkaskjól sem svo er kallað á íslensku. Ég held að fyrirtæki eigi að koma með siðareglur vegna þess að það sér sér hag í því gagnvart sínum starfsmönnum, gagnvart sínum viðskiptamönnum og gagnvart umhverfinu, vegna þess að það sér sér hag í því að hafa góða ímynd. Og þetta eru fyrirtæki í auknum mæli að sjá. Við sjáum bara auglýsingarnar, við sjáum trjáræktina og við sjáum styrkina. Fyrirtæki eru að sjá að ímynd er ekki síður verðmæti en hvað annað. Það sem þyrfti að gera er að koma af stað umræðu, og til þess er þetta frv. mjög gott, um siðferði og hvernig slíkar siðareglur gætu litið út, því við erum að fara þarna inn á nýtt svið sem ekki hefur verið rannsakað nægilega, þ.e. hvað eigi að standa í slíkum siðareglum fyrirtækja. Þannig gæti ég stutt tillöguna, þ.e. ef hún væri orðuð örlítið öðruvísi.