Setning siðareglna í viðskiptum á fjármálamarkaði

Fimmtudaginn 21. október 1999, kl. 11:56:20 (834)

1999-10-21 11:56:20# 125. lþ. 15.2 fundur 24. mál: #A setning siðareglna í viðskiptum á fjármálamarkaði# þál. 20/125, ÁMöl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 125. lþ.

[11:56]

Ásta Möller (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er aftur komin upp til þess að ræða siðareglur. Ég veit ekki hvort hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson misskildi vísvitandi það sem ég sagði eða hvort þetta var útúrsnúningur. En það var engan veginn hægt að lesa úr mínum orðum áðan að ég væri mótfallin því að settar væru siðareglur í viðskiptum, öðru nær. Það sem ég var hins vegar að segja var að siðareglur verða aldrei settar ofan frá. Þær verða að koma úr grasrótinni. Ég tel að það yrði fyrirtæki til bóta ef það setti sínar siðareglur þar sem það lýsti sínum grundvallarviðhorfum, viðmiðunum og gildum þannig að ég gæti sem einstaklingur í viðskiptum við þetta fyrirtæki metið hvort ég vildi vera í viðskiptum við fyrirtækið. Ef ég tek langsótt dæmi, kannski þarf þess til að fólk skilji þetta, um að ef í siðareglum fyrirtækis kæmi fram að það væri ekki hlynnt jafnrétti kynjanna eða réði ekki til sín litaða menn, þá mundi ég alls ekki eiga nein viðskipti við það fyrirtæki. Niðurstaðan er því þessi: Siðareglur eru af hinu góða og siðareglur verða aldrei settar nema af þeim aðilum sem ætla að vinna eftir þeim. Ef þær koma ofan frá þá lýsa þær ekki ... (BH: Þær koma ekki ofan frá. Þú verður að lesa tillöguna.) Það stendur hérna: ,,... að fela viðskiptaráðherra að sjá um að allar stofnanir og fyrirtæki (Gripið fram í.) á fjármálamarkaðinum setji sér sérstakar siðareglur ...`` og ,,skulu lagðar fyrir viðskiptaráðherra til staðfestingar.`` (Gripið fram í.) Til staðfestingar, þýðir þá að viðskrh. vill hafa eitthvað um þetta að segja. Hann setur einhvern ákveðinn staðal um hvort þær séu góðar eða ekki góðar. Þannig skil ég þetta. En anda tillögunnar er ég alls ekki á móti. Mér finnst þetta hið besta mál en það sem ég er að segja er að það þarf að setja þetta fram á annan máta.