Setning siðareglna í viðskiptum á fjármálamarkaði

Fimmtudaginn 21. október 1999, kl. 12:20:01 (841)

1999-10-21 12:20:01# 125. lþ. 15.2 fundur 24. mál: #A setning siðareglna í viðskiptum á fjármálamarkaði# þál. 20/125, LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 125. lþ.

[12:20]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Svo ég velti fyrir mér áhrifum tæknibreytinga og nýjunga á markaðinn og spurningunni um hvað sé rétt og rangt í því samhengi. Ég held að það sé ekki rétt, virðulegi forseti, að nálgast viðfangsefnið með þessum hætti. Ef við einföldum þetta þá getum við sagt: Boðorðin tíu. Í þeim má greina ákveðin siðferðisleg viðhorf sem lifað hafa af allar tæknibreytingar. Það er það sem ég er að segja, að við byggjum á ákveðnum grunni sem við vinnum síðan út frá og notum þá mælistiku á breytingarnar. Nýjungar og breytingar einar og sér breyta ekki viðmiðunum. Það er kannski það sem ég átti við, virðulegi forseti, með að við værum nokkurn veginn sammála flest um hvað er gott siðferði og hvað ekki.

Ég tel að við eigum að beita þessum viðurkenndu grunnreglum sem kannski endurspeglast að miklu leyti í boðorðunum tíu. Við gleymum okkur stundum í hinni tæknilegu umræðu. Þetta er kannski ekki eins flókið og menn vilja vera láta. Það er þetta sem ég er að vitna til, virðulegi forseti, þegar ég segi að við séum nokkuð sammála um siðferðið. Við þurfum bara beita þessum siðferðisreglum á þær nýjungar og breytingar sem eiga sér stað en ekki kannski að þær breyti grundvallarreglunum.