Setning siðareglna í viðskiptum á fjármálamarkaði

Fimmtudaginn 21. október 1999, kl. 12:23:18 (843)

1999-10-21 12:23:18# 125. lþ. 15.2 fundur 24. mál: #A setning siðareglna í viðskiptum á fjármálamarkaði# þál. 20/125, LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 125. lþ.

[12:23]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Lífið er nú allt þannig að við þurfum alltaf að velja og hafna. En vegna þess dæmis sem hv. þm. nefndi áðan, að ef tiltekinn aðili vissi að gengi í hlutabréfum mundi hækka á morgun og væri spurður hvort menn ættu að kaupa eða selja, þá held ég að þetta sé ekki spurningin um að segja satt eða ósatt. Þá er það fyrst og fremst spurning um að kaupendur sitji við sama borð, að þegar upplýsingarnar komi séu þær ekki veittar ákveðnum útvöldum á undan öðrum. Það er grundvallaratriðið. (Gripið fram í: Á hann að ljúga?) Nei, hann á ekki að ljúga, virðulegi forseti. Ég held að langeðlilegast væri að segja: Vegna þeirra upplýsinga sem ég hef get ég ekki svarað þér núna. Ef upplýsingarnar birtast daginn eftir og allir hafa að þeim aðgang, þá er eðlilegt að upplýsa viðkomandi ekki um það í dag. Hann þarf ekki að segja rangt frá. Hann getur hins vegar sagt: Ég get ekki ráðlagt þér í dag vegna þess að ég hef upplýsingar sem líklega gera það að verkum að ég veit hvort gengið í bréfunum muni hækka eða lækka. (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Það getur fallið í báðar áttir á hlutabréfamarkaði eins og hv. þm. Pétur Blöndal veit.