Setning siðareglna í viðskiptum á fjármálamarkaði

Fimmtudaginn 21. október 1999, kl. 12:33:09 (845)

1999-10-21 12:33:09# 125. lþ. 15.2 fundur 24. mál: #A setning siðareglna í viðskiptum á fjármálamarkaði# þál. 20/125, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 125. lþ.

[12:33]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Afstaða hv. þm. til fyrirtækja, sérstaklega á fjármálamarkaði, virðist mjög neikvæð. Hv. þm. hefur, eins og ég talaði um áðan, lent í neikvæðum atvikum. Eins og ég gat um þarf mörg jákvæð atvik til að upphefja eitt neikvætt. Þess vegna dugir ekki að bankinn hennar hafi borgað háa vexti og annað slíkt, veitt góða þjónustu --- neikvæðu atvikin eru enn ekki gleymd.

Siðferðimarkmið fyrirtækja eru aldrei þannig að fyrirtæki segi: Við erum heiðarleg. Eða að það segi: Við erum sanngjörn. Heldur segir það: Starfsmenn okkar leitast við að vera heiðarlegir. Starfsmenn okkar leitast við að vera sanngjarnir. Þegar viðskiptavinur rekst á starfsmann sem ekki er heiðarlegur og ekki sanngjarn, þá getur hann vísað í þessar reglur og sagt: Hér stendur í markmiðum fyrirtækis þíns að þú eigir að leitast við að vera sanngjarn og heiðarlegur. Þetta er einmitt spurningin um hvernig svona siðareglur eru settar upp.

Varðandi það sem hv. þm. sagði, sem er náttúruverndarsinni --- það er hennar réttur að sjálfsögðu og hún setur náttúruna ofar öllu og segist ekki geta átt viðskipti við neina innlenda stofnun. Það má vel vera. Þá lendir hún í ákveðnum vanda. Hún getur tekið peningana sína út og sett þá undir koddann. Það breytir í sjálfu sér engu í efnahagskerfinu. Þeir peningar vinna ekki. Það sem hún gæti gert, þökk sé nútímanum, er að leggja peningana inn á erlenda banka sem margir hverjir hafa gefið sig út fyrir það að fjárfesta ekki í nokkru sem rekst á þau sjónarmið sem hv. þm. trúir á og treystir.