Samkeppnislög

Fimmtudaginn 21. október 1999, kl. 14:11:12 (853)

1999-10-21 14:11:12# 125. lþ. 15.3 fundur 90. mál: #A samkeppnislög# (bannregla, markaðsráðandi staða, frestir o.fl.) frv., RG
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 125. lþ.

[14:11]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég ætla að lýsa ánægju minni með það að viðskrh. skuli fylgjast með þessari umræðu. Það hlýtur að vekja mjög athygli okkar sem hér erum og ræðum hið stóra mál sem samkeppnislögin eru, hversu lítill áhugi stjórnarliða er á því og gildir það sama og fyrr á þessum morgni að aðeins einn sýnir einhvern áhuga á málefnum markaðarins sem er að verða æ meira ríkjandi í okkar þjóðfélagi. Það er umhugsunarefni varðandi fulltrúa Sjálfstfl., þessa stóra flokks sem maður á sínum tíma hélt að væri flokkurinn sem bæri heilbrigðan markað fyrir brjósti, að við sjáum að því er á annan veg farið. Það er enginn áhugi á því að ræða málin, skoða hvað betur mætti fara, ræða í alvöru hvað hefur verið til vansa á liðnum árum og ræða það í hvaða mæli samkeppnislögum er ábótavant. Við tökum auðvitað eftir þessu og gagnrýnum það að þeir sem við erum í raun að ræða við skuli ekki vera hér. Hugsanlega eru þeir að horfa á sjónvarpið úti á skrifstofu. En það er nú einu sinni þannig að þegar kallað er eftir því að þingmenn komi til viðræðu eða viðveru í þingsal þá koma þeir gjarnan hlaupandi sem eru að fylgjast með á skrifstofum sínum. Þetta hefur ekkert gerst á þessum morgni þannig að það segir okkur ákveðna sögu.

Virðulegi forseti. Ég hlýt að gagnrýna þetta vegna þess að þau mál sem við mælum hér fyrir eru faglega unnin. Þau eru stór. Þau eru mikilvæg, en þeim er ekki nokkur áhugi sýndur.

Lúðvík Bergvinsson, þingmaður Samfylkingarinnar, gerði mjög vel grein fyrir þessu frv. og hann gerði meira, hann fór almennt í umræðu um samkeppnismál. Hann fór yfir meginatriði samkeppnislaganna eins og þau eru nú og þær breytingar sem tillögur okkar kveða á um. Í raun og veru má kannski segja að litlu sé við það að bæta. Ég vil þó koma inn á nokkur atriði sem mér finnst skipta máli í umræðunni.

Við höfum rætt það að heilbrigð samkeppni, gegnsæjar leikreglur, skýrar og einfaldar, séu það sem við þurfum og að heilbrigð samkeppni eigi að leiða til betri markaðar, til meiri hagkvæmni, til niðurstöðu sem komi neytendum til góða fyrst og fremst. Við höfum séð að hér hafi verið að gerast hlutir sem hafa ekki verið í þágu neytenda. Þeir hafa verið í þágu fjármagns stundum, fjármagnseigenda, en neytendur hafa ekki endilega notið góðs af þeirri samkeppni sem hefur virst vera að verða hér. Það er niðurstaða okkar í Samfylkingunni að samkeppnisyfirvöldum sé ekki gert nægilega kleift að sinna hlutverki sínu.

Virðulegi forseti. Það er umhugsunarefni að Samkeppnisstofnun hefur lent upp á kant við stjórnvöld í nokkur skipti þegar hún hefur beitt þeim úrræðum sem hún þó hefur samkvæmt samkeppnislögunum eins og þau eru nú.

[14:15]

Ég get rifjað hérna upp þrjú mál í fljótu bragði. Eitt þeirra varðar Landssímann en úrskurður hefur fallið um það að samkvæmt samkeppnislögum verði að skilja að GSM-þátt Landssímans þannig að það sé alveg ljóst að ekki sé verið að flytja þar til rekstur eða blanda rekstri saman og að mikilvægt sé upp á markaðinn að GSM-þáttur fyrirtækisins sé algjörlega sér. Ekki hefur verið orðið við þessu og það hefur kveðið svo rammt að viðbrögðum stjórnvalda að yfirmaður samkeppnisfyrirtækis hefur gengið svo langt að ásaka hæstv. samgrh. um að vera samgrh. eins fyrirtækis á símamarkaði en ekki annars. Það eru mjög alvarlegar ásakanir að slíkt skuli koma fram í þjóðfélaginu. En það sem blasir við okkur, án þess að taka afstöðu ti þeirra ásakana, er að þráast er við að skilja að GSM-þátt fyrirtækisins og við hljótum að gagnrýna það.

Annað mál sem ég mundi vilja rifja upp í þessu samhengi einnig er svokallað Flugleiðamál en þá bar forsrh. sjálfur brigður á úrskurð Samkeppnisstofnunar að sá úrskurður væri ekki í þágu neytenda þegar um var að ræða sameiningu flugfélaga. Enn má minna á niðurstöðu um það, sem reyndar framsögumaður Lúðvík Bergvinsson rifjaði hér upp, þegar tvö stórfyrirtæki á brauðmarkaði sameinuðust í eitt, þá gekk það svo langt að formaður efh.- og viðskn. taldi jafnvel ástæðu til að breyta samkeppnislögum og draga úr þó þeim heimildum sem Samkeppnisstofnun hefur til að bregðast við markaðsráðandi aðstöðu og hugsanlega misbeitingu á markaðsráðandi aðstöðu.

Þetta hlýtur að vera öllu hugsandi fólki umhugsunarefni og þó að við hér í þingsalnum förum ekki í stól dómara í þessum efnum eða öðrum, þá hljótum við að leiða hugann að því að við eigum að búa þannig um þær stofnanir sem eiga að gæta að heilbrigðum viðskiptaháttum að þær geti sinnt þeim verkum sem við ætlumst til af þeim.

Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson minntist líka á að mjög mikilvægt væri að Samkeppnisstofnun héldi skrá um stjórnunar- og eignatengsl í íslensku atvinnulífi og eðlilegt væri að slík skrá væri á netinu og ég tek undir það. Ég minntist á það í morgun þegar ég var að telja upp þau frumvörp og tillögur sem við værum að flytja og beindust að því að efla samkeppni í þágu neytenda og að við yrðum með tæki til þess að svo geti orðið, að við værum með skýrslubeiðni um stjórnunar- og eignatengsl fyrirtækja í íslensku atvinnulífi. Það er umhugsunarefni að slík skýrsla skuli hafa komið fram 1994 því hún vakti gífurlega eftirtekt allra sem fjölluðu um hana, ekki síst fjölmiðla, vegna þess að hún leiddi svo berlega í ljós hvaða þróun væri að verða í þjóðfélaginu og hvernig fákeppni og hagsmunatengsl væru að verða á fyrirtækjamarkaði. Allt í einu gátu menn séð hvernig eitt fyrirtæki átti dótturfyrirtæki í öðru og hvernig netverk eignarhalds teygði sig út um þjóðfélagið. Það er umhugsunarefni að árið 1999 hefur slík skýrsla ekki enn þá verið unnin aftur, en nú höfum við sem sagt bætt úr því með því að leggja fram beiðni um slíka skýrslu. Það á auðvitað að vera þannig núna þegar að við erum komin með þá tækniþekkingu sem við erum alltaf að fjalla um og þekkjum svo vel, að hægt væri að vera með slíkt verkefni á vefsíðu og uppfæra upplýsingar á slíkri vefsíðu nærri því frá degi til dags þó maður gengi ekki lengra en að slíkar upplýsingar yrðu uppfærðar á þriggja eða sex mánaða fresti. Þá væri líklega komið það besta aðhald sem hægt er að hugsa sér á það að hægt væri að fylgjast með að hér væru fyrirtæki að verða óþarflega ráðandi á markaði. Það er ekki síst sú tillaga í þessu frv. til breytinga á samkeppnislögum sem mér finnst mikilvæg, þ.e. að hvenær sem er verði hægt að fylgjast með hvernig stjórnunar- og eignatengsl eru að verða í samkeppnisumhverfi okkar.

Utandagskrárumræða var hér fyrir fáum dögum og þá benti Svanfríður Jónasdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, á hvernig eignarhluti fyrirtækis sem hefur verið að kaupa hluti í sjávarútvegsfyrirtækjum hefur hægt og sígandi komist í 16% hlutdeild á útvegsmarkaði þrátt fyrir að lög kveði á um að slíkur hlutur megi ekki vera hærri en 8%. Enginn hefur brugðist við þessu. Auðvitað vakti utandagskrárumræðan athygli og þess vegna skulum við aldrei gleyma því hversu mikilvægur þáttur stjórnarandstöðu er að vekja athygli á málum, fara hér upp, bæði í utandagskrárumræðu eða með þingmál til þess að beina sjónum manna að því sem hefur dregist aftur úr, er ekki sinnt eða verið er að verja á röngum forsendum eftir því hvað við á hverju sinni. Ekki er nóg að setja lög ef stjórnvöld gæta svo ekki að því að þau lög séu haldin. Hægt er að halda því fram að menn gætu skákað í því skjólinu að enginn viti hvernig þessi ráðandi hlutdeild er vegna þess að til að finna það út þarf að fara ofan í ársskýrslur fyrirtækja, fylgjast með fréttum og byrja að skrá hjá sér eins og þingmaðurinn gerði í raun og veru í þessu tiltekna dæmi. Hver getur gert það varðandi allan markaðinn? Enginn, nema þá það ráðuneyti sem slík mál heyra undir. Þess vegna er mjög mikilvægt að vera með slíka skýrslu ávallt uppfærða og að hún sé aðgengileg og hægt sé að fylgjast með hvernig eignarhald er að færast til í þjóðfélaginu.

Mér finnst þetta mikilvægast af minni hálfu að koma fram með vegna þess að búið er að gera þessum málum mjög vel skil. Auðvitað eigum við að ræða hvernig við sjáum heilbrigða samkeppni, auðvitað eigum við að ræða hvernig leikreglur við eigum að hafa og auðvitað eiga stjórnarliðar að koma hér og hafa skoðun á því þegar við erum að setja fram vönduð mál með þessum hætti. Ég treysti því að viðskrh. muni vera við umræðuna, taki þátt í henni og hafi skoðun á frumvarpinu, annað væri alveg fáheyrt.

Í máli framsögumanns kom fram að samkeppnisreglur vestrænna þjóða væru byggðar á tveimur mismunandi grundvallaraðferðum eða atriðum, annars vegar banni og hins vegar misbeitingu. Einnig kom fram hjá honum að bannið er lagt til grundvallar, bæði í löggjöf Evrópusambandsríkjanna og Bandaríkjanna og það ætti að vera umhugsunaratriði fyrir okkur.

Við hljótum að þurfa að taka á þessum málum og átta okkur á því að núverandi fyrirkomulag leiðir til þess að það þarf að ákveða í hverju máli fyrir sig, eins og kom fram í máli hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar, hvort um misnotkun hafi verið að ræða og þá að banna hana. Það þýðir að markaðsráðandi fyrirtæki getur misnotað stöðu sína, sér að skaðlausu, þar til það hefur verið tekið fyrir. Erlendis er hins vegar í flestum tilfellum bönnuð misnotkun fyrir fram og getur varðað háum sektum. Þetta er það sem við eigum að ræða hér og hvað okkur finnist eðlilegt í þessum málum, hvernig við viljum breyta reglunum til að hér sé heilbrigð samkeppni og að hún leiði örugglega til þeirrar hagkvæmni sem á að koma neytendum til góða en ekki til einhvers annars sem færir meira fé í vasa tiltekinna aðila.