Samkeppnislög

Fimmtudaginn 21. október 1999, kl. 14:30:22 (856)

1999-10-21 14:30:22# 125. lþ. 15.3 fundur 90. mál: #A samkeppnislög# (bannregla, markaðsráðandi staða, frestir o.fl.) frv., viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 125. lþ.

[14:30]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er sjálfsagt og eðlilegt að þetta mál fái faglega skoðun í nefnd. Ég vonast til þess að hv. þm. geri ekki lítið úr því þó að slíku sé lýst yfir af ráðherrum, að þeir vilji gjarnan að mál fái nákvæma og faglega skoðun. Ég held hins vegar að það liggi ekkert á að afgreiða málið úr nefnd. Ég tek undir það sem hv. þm. kom inn á í lok ræðu sinnar, að kannski væri rétt að doka við og sjá hvernig stjfrv. lítur út. Þá gæti það orðið hlutverk efh.- og viðskn. að vega og meta þessi mál saman og kanna þá um leið hvort eitthvað í þessu frv. eða í stjfrv. mætti betur fara og þá hugsanlega sameina. Ég held að það sé hin eðlilega leið þingsins til þess að koma að málinu.

Samkeppnismál eru ekki kosningamál. Það hefði ekki verið skynsamlegt að fara að draga upp einhverja mynd rétt fyrir kosningar af því hvað ætti að gera. Samkeppnismál eru málaflokkur sem oft leggur grunninn að langtímarekstrarumhverfi fyrirtækja í landinu og þess vegna geta menn ekki leyft sér að vera með slík mál rétt fyrir kosningar.

Það er rétt að nefndin hefur tekið sinn tíma til þess að kortleggja stöðuna, fara yfir þá hluti sem betur mega fara í gildandi lögum um samkeppnismál. Það er skynsamlegt og eðlilegt að taka þann tíma sem menn þurfa til þess. Nú er eins og ég sagði áðan komið að því að nefndin mun á næstu dögum eða vikum skila af sér tillögum um það hverju megi breyta. Ég vona að það geti gerst í næstu viku. Í framhaldi af því sagði ég að ég mundi leggja fram frv. til breytinga á lögum um samkeppnismál. Ég tel eðlilegt að það sé skoðað í samhengi við þetta mál í efh.- og viðskn.