Samkeppnislög

Fimmtudaginn 21. október 1999, kl. 14:59:43 (865)

1999-10-21 14:59:43# 125. lþ. 15.3 fundur 90. mál: #A samkeppnislög# (bannregla, markaðsráðandi staða, frestir o.fl.) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 125. lþ.

[14:59]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að koma inn á efnisatriði ræðu hv. þm. heldur ætla ég, eins og í morgun, að koma inn á þá palladóma sem hann fellir stöðugt.

Hann sagði áðan að þingmenn Sjálfstfl. flyttu innihaldslausar ræður og þeir voru tveir í morgun, hv. þm. Ásta Möller og ég, sem fluttu ræður. Hann er að gefa okkur þann dóm að ræður okkar í morgun hafi verið innihaldslausar. Annað heyrði ég nú á öðrum þingmönnum í sama flokki og hv. þm.

[15:00]

Hér er á ferðinni arfur liðins tíma, þess tíma að menn voru með skæting og umræður voru lítt málefnalegar. Það getur vel verið að hv. þm. finnist ræður okkar innihaldslausar. Hann kann að vera ósammála því sem við segjum. En hann verður að hafa það í huga að við höfum bara aðra sýn, við höfum aðra heimssýn. Þar af leiðandi höfum aðrar lausnir á vandanum.

Ég ber það mikla virðingu fyrir heimssýn hv. þm. að mér dettur ekki í hug að segja að það sem hann heldur fram sé kjaftæði og vitleysa, heldur segi ég: Sú niðurstaða sem hann kemst að er vegna heimssýnar hans. Ég virði þá heimssýn, þó ég sé henni ekki sammála.

Ég tel mjög mikilvægt að við berum virðingu fyrir skoðunum hvers annars og dettum ekki í þann pytt að segja að ræður séu innihaldslausar ef við teljum að einhver hafi rangt fyrir sér.