Samkeppnislög

Fimmtudaginn 21. október 1999, kl. 15:01:37 (866)

1999-10-21 15:01:37# 125. lþ. 15.3 fundur 90. mál: #A samkeppnislög# (bannregla, markaðsráðandi staða, frestir o.fl.) frv., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 125. lþ.

[15:01]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Hafi ég sagt að ræða hv. þm. Péturs Blöndals hafi verið innihaldslítil þá hafa það verið mismæli. Hafði ég sagt það þá tek ég það aftur því að hún var mjög innihaldsrík. En mér fannst þau viðhorf sem þar komu fram ekkert mjög skynsamleg. En það er auðvitað réttur hv. þm. að hafa sín sjónarmið uppi. Ég hef líka rétt á að hafa skoðanir á þeim. Í guðanna bænum, herra forseti, það yrði nú leiðindasamkoma ef allir hv. þm. væru jafnviðkvæmir fyrir sjálfum sér og hv. þm.

Tölum hér tæpitungulaust. Ég vil þakka hv. þm. að koma hér til umræðunnar og taka þátt í henni. Fyrir það er ég honum þakklátur. Hitt er öllu verra að félagar hans í Sjálfstfl. skuli þegja þunnu hljóði. Það er allra verst. Mér þykja skárri vondar ræður en engar um jafnmikilvæg mál og hér um ræðir.