Samkeppnislög

Fimmtudaginn 21. október 1999, kl. 15:03:25 (869)

1999-10-21 15:03:25# 125. lþ. 15.3 fundur 90. mál: #A samkeppnislög# (bannregla, markaðsráðandi staða, frestir o.fl.) frv., Flm. LB
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 125. lþ.

[15:03]

Flm. (Lúðvík Bergvinsson):

Virðulegi forseti. Ég vil nú í lokaræðu minni þakka þeim sem hafa tekið þátt í þessari umræðu um samkeppnismál. Ég þakka þær undirtektir sem málið hefur fengið hér á hinu háa Alþingi. Ég vil ítreka sérstakar þakkir til hæstv. iðn.- og viðskrh. sem tók þannig í málið að ég held að þegar fram líða stundir megi mynda sterka samstöðu og samráð um nýtt frv. um samkeppnismál þegar það kemur. Ég lýsi því yfir að ég er tilbúinn til þess að taka þátt í því með hæstv. iðn.- og viðskrh.

Ég verð þó, virðulegi forseti, líkt og hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson að taka undir það að í fyrndinni var í landinu stjórnmálaflokkur sem kenndi sig við frelsi og lýðræði. Á tyllidögum talaði sá jafnvel um samkeppni. En líklega áttu þeir aldrei við annað, virðulegi forseti, en samkeppni þar sem ríkið var með einokunaraðstöðu. Líklega hefur samkeppnishugsun þessa flokks aldrei náð lengra en svo að komast inn á vettvang þar sem ríkið hafði verið eitt fyrir.

Virðulegi forseti. Ég er jafnmikið á móti ríkiseinokun á mörgum sviðum eins og ég er á móti einkaeinokun á öðrum sviðum. Ég tel langt frá því að hún sé á nokkurn hátt betri. Ég tel svo sem ekki ástæðu til þess að lengja þessa umræðu mikið meir. Ég vil ítreka þakkir til þeirra sem tóku þátt í henni en jafnframt lýsa yfir miklum vonbrigðum yfir því að fulltrúar Sjálfstfl. skyldu ekki sjá sér fært að taka þátt í umræðunni. Sjálfstfl. kenndi sig einu sinni við viðskipti, samkeppni og lýðræði en líklega er það liðin tíð. Hin kalda hagsmunagæsla í þágu hinna fáu útvöldu hefur orðið ofan á. Kannski er það hinn harði raunveruleiki eftir átta ára forustu hæstv. forsrh. í þeim flokki.