Samkeppnislög

Fimmtudaginn 21. október 1999, kl. 15:27:56 (874)

1999-10-21 15:27:56# 125. lþ. 15.3 fundur 90. mál: #A samkeppnislög# (bannregla, markaðsráðandi staða, frestir o.fl.) frv., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 125. lþ.

[15:27]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Það er ekki áhlaupaverk að fara hratt yfir ýmis þau atriði sem hv. 1. þm. Norðurl. e. kom inn á. Hann stiklaði yfir sviðið hratt og skipulagslítið kannski og drap á ýmislegt.

Ég honum sammála um eitt og það er að þeir aðilar sem hafa úrskurðarvald á hendi, eins og samkeppnisráð, umboðsmaður Alþingis og Ríkisendurskoðun, eiga ekki í kjölfar slíkra úrskurða að taka þátt í almennri umræðu eða deilum um þau atriði sem þeir úrskurða í. Um það er ég honum sammála. Þessir aðilar eiga að hugsa sinn gang varðandi það. Þeirra rökstuddu úrskurðir eiga að standa einir og sér og þessar stofnanir eiga ekki að taka þátt í almennu pólitísku pexi við ráðherra, þingmenn eða aðra.

Hv. þm. drap á fjölmargt og gerði það dálítið sérkennilega. Hann stiklaði um þetta stóra svið. Það er athyglivert að hann nefndi hádegisflugið til Egilsstaða. Að vísu nefndi ég ekki þann stað sem flugið var til, en allt í lagi, það vita allir hvað um er að ræða. Það mál er einmitt dæmigert um það að hægt er að snúa út úr aðalatriðunum og gera aðalatriðin að aukaatriðum.

Auðvitað snýst þetta ekkert um hótel á Egilsstöðum. Auðvitað snýst þetta ekkert um það hvort eitt flugfélag eða annað megi fljúga klukkan 12.10 til Egilsstaða og til baka klukkan 13.20. Þetta snýst um langtum stærra og veigameira mál. Þetta snýst um það hvort við ætlum að hafa tvö fyrirtæki á þessum markaði eða þrjú, snýst um það hvort fargjaldið á Egilsstaði sé 6.000 kall eða 10.000 kall, eins og það var meðan eitt flugfélag var allsráðandi á markaði. Það er kjarni þessa máls og í því samhengi verða menn að horfa á þessa hluti.

Ég ætla í seinna andsvari mínu að fara nokkrum orðum um Landssímann, uppáhaldsefni hv. þm. Ætlar ekki þingmaðurinn að gefa mér kost á því einu sinni? Ætlar hann að drepa mig í Landssímanum?