Samkeppnislög

Fimmtudaginn 21. október 1999, kl. 15:45:59 (878)

1999-10-21 15:45:59# 125. lþ. 15.3 fundur 90. mál: #A samkeppnislög# (bannregla, markaðsráðandi staða, frestir o.fl.) frv., HBl
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 125. lþ.

[15:45]

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Það sem vekur athygli mína hjá þeim þingmönnum Samfylkingarinnar sem talað hafa, er í fyrsta lagi að hvorugur þeirra sá ástæðu til að velta því upp hverjir væru hagsmunir þeirra einstaklinga og þeirra fyrirtækja sem hafa fjárfest í gistihúsum og ferðaþjónustu á Austurlandi. Það liggur þó fyrir að þeir eru aðilar að því máli hvort skynsamlegt og rétt sé að beita samkeppnishömlum til þess að torvelda fólki að koma austur þangað. En ég heyrði á báðum þessum þingmönnum að þeir höfðu ekki áhyggjur af því og töldu að umþenkingar mínar um þau málefni væru raunar út í hött ef ég skildi rétt þær almennu athugasemdir sem þeir gerðu við málflutning minn.

Annað sem vakti athygli mína var að hv. 6. þm. Reykn., Guðmundur Árni Stefánsson, tók undir þegar ég fann að því að fulltrúar Samkeppnisstofnunar væru að úttala sig í fjölmiðlum um úrskurði samkeppnisráðs. Ég skildi að vísu hv. þm. svo að hann ætti einnig við embættismenn Samkeppnisstofnunar þegar hann talaði um samkeppnisráð í þessum samhengi. Auðvitað dettur engum manni í hug að starfsmenn umboðsmanns Alþingis t.d. fari að flytja langar ræður til að réttlæta úrskurði hans. Að þessu leyti er ég þakklátur því sjónarmiði hv. 6. þm. Reykn. sem um leið skýtur auðvitað stoðum undir þau orð mín að slík ummæli geti verið óheppileg, séu til þess fallin að grafa undan trausti á Samkeppnisstofnun og geti í vissum tilvikum valdið því að starfsmenn Samkeppnisstofnunar séu vanhæfir til að fjalla efnislega um einstök málefni eða jafnvel um málefni einstakra fyrirtækja. Svo undarlegt sem það er þá gaf hv. 6. þm. Reykn. sér að ég hefði verið að tala um Landssímann í þessum almennu athugasemdum mínum sem ég var raunar ekki að gera. Ég minntist ekki einu einasta orði á það hvaða fyrirtæki sérstaklega eða hvaða málefni ég hafði í huga.

Sú almenna athugasemd 1. flm., hv. 6. þm. Suðurl., Lúðvíks Bergvinssonar, þótti mér undarleg og sú samlíking að Samkeppnisstofnun og starfsmönnum hennar yrði helst líkt við afbrotadeild lögreglunnar og áttaði mig ekki á því hvernig hann kom þeirri líkingu heim og saman við heilbrigðan atvinnurekstur hér á landi.

Að síðustu vil ég aðeins segja að það kom ekki á óvart þegar hv. þm. gerði það að umræðuefni og virtist undrandi að ég skyldi hafa talið að Stöð 2 og Ríkisútvarpið hefðu misnotað markaðsráðandi stöðu sína. Við getum kannski velt upp þeirri spurningu hvernig á því geti staðið að við Íslendingar höfum ekki tækifæri til að horfa á sjónvarpsstöð frá öðrum Norðurlöndum, hvorki Danmörku, Svíþjóð né Noregi. Það skyldi nú ekki vera að ýmsir Íslendingar hefðu áhuga á því og þá skulum við velta því fyrir okkur hvað það er sem kemur í veg fyrir að hægt sé að verða við þeim þörfum neytenda. Það er auðvitað fákeppnin á sjónvarpsmarkaðnum, áhugaleysi þeirra sem ráða stefnu Stöðvar 2 og Ríkisútvarpsins á að leyfa okkur Íslendingum að koma inn í samfélag annarra Norðurlanda með þeim hætti sem ég var að lýsa.