Samkeppnislög

Fimmtudaginn 21. október 1999, kl. 15:51:42 (879)

1999-10-21 15:51:42# 125. lþ. 15.3 fundur 90. mál: #A samkeppnislög# (bannregla, markaðsráðandi staða, frestir o.fl.) frv., Flm. LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 125. lþ.

[15:51]

Flm. (Lúðvík Bergvinsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að þetta hafi kannski ekki verið til þess fallið að skýra málið. En ég vildi aðeins koma hér upp og nefna af því að hæstv. forseti Alþingis, sem tekur þátt í þessari umræðu og er reyndar eini sjálfstæðismaðurinn sem tekur þátt í henni, ber saman umboðsmann Alþingis annars vegar og Samkeppnisstofnun hins vegar. Það er örlítið sorglegt að hæstv. forseti sem yfirmaður umboðsmanns Alþingis, en umboðsmaður heyrir undir Alþingi, skuli tala með þessum hætti því að umboðsmaður Alþingis hefur allt annað hlutverk en Samkeppnisstofnun. Umboðsmaður Alþingis hefur fyrst og fremst það hlutverk að fjalla um ágreining sem kemur upp milli einstaklings og stjórnsýslunnar. Það hefur ekki neitt eftirlitshlutverk umfram það sem kemur á borð til hans og hann tekur upp að eigin frumkvæði, en hann hefur ekkert sektarvald né slíkt. Þessar stofnanir eru svo eðlisólíkar að það er dálítið sorglegt að hæstv. forseti skuli bera þær saman og kannski er það sökum þess að hæstv. forseti hefur ekki alveg kynnt sér í þaula þann mun sem er á þeim stofnunum en þær eru á engan hátt sambærilegar og þess vegna held ég að það þjóni ekki neinum tilgangi að halda umræðunni áfram á þessum nótum.